Kapp án forsjár hjá BSRB

Viðskiptaráð stóð nýverið fyrir erindi á morgunverðarfundi um stöðu og horfur í ríkisfjármálum. Þar kom fram að rekstraraðlögun ríkisins frá efnahagshruni hafi að mestum hluta verið í formi aukningar skatttekna og samdráttar í fjárfestingum í stað aðhalds í rekstrar- og launakostnaði. BSRB hefur nú sent frá sér fréttatilkynningu um að fullyrðingar Viðskiptaráðs um aukningu í fjölda stöðugilda hjá ríkinu séu rangar. Af því tilefni vill Viðskiptaráð benda á eftirfarandi atriði.

Stærsta misræmið í tölum Viðskiptaráðs og BSRB má finna í fjölda ríkisstarfsmanna um síðustu aldamót. Í tölum BSRB er fullyrt að stöðugildi hjá ríkinu hafi verið 15.700 árið 2000 og vísað er til upplýsinga frá fjármálaráðuneytinu án þess að beinnar heimildar sé getið. Þessi fullyrðing stangast á við opinberar upplýsingar frá sama ráðuneyti. Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi þann 19. nóvember 2009 kemur fram að fjöldi stöðugilda hjá ríkinu hafi verið 14.000 árið 2000. Viðskiptaráð notaðist við hinar opinberu tölur, en ekki kemur fram í tilkynningu BSRB hvers vegna litið var framhjá þeim.

Þá kemur fram í tilkynningu BSRB að störfum hjá ríkinu hafi fækkað um 10,6% frá árinu 2008 og því haldið fram að fullyrðingar Viðskiptaráðs um einungis 3% fækkun ríkisstarfsmanna á þessum tíma séu rangar. Hér yfirsést BSRB tvennt.

Í fyrsta lagi var stór málaflokkur, málefni fatlaðra, fluttur frá ríkinu yfir til sveitarfélaga árið 2011 og færðust þá 905 stöðugildi á milli þessara aðila. Ef bera á saman tölur fyrir og eftir þessa tilfærslu ber að leiðrétta fyrir henni. Sé það gert hverfur um helmingur þeirrar fækkunar stöðugilda sem BSRB fullyrðir að átt sér hafi stað hjá ríkinu á þessu tímabili.

Í öðru lagi þá miðaði Viðskiptaráð í útreikningum sínum við árið 2009, þegar efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og síðustu ríkisstjórnar hófst, en ekki árið 2008 líkt og BSRB virðist hafa talið. Að teknu tilliti til tilfærslu málefna fatlaðra hefur ríkisstarfsmönnum fækkað um 3% frá árinu 2009, líkt og áður kom fram hjá Viðskiptaráði, en ríkisstarfsmönnum fækkað um tæp 5% frá árinu 2008 en ekki 10,6% eins og kom fram í tilkynningu BSRB.

Skilaboð Viðskiptaráðs um að fjölgun starfa hjá hinu opinbera hafi verið verulega umfram fjölgun starfa á almennum vinnumarkaði standa óhögguð. Ef litið er til fjölda opinberra starfsmanna í heild, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, má sjá að þeim hefur fjölgað um 29% frá aldamótum (úr 28.700 stöðugildum árið 2000 í 36.880 árið 2014 samkvæmt fjármálaráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga). Á sama tíma hefur fjölgun starfa á almennum vinnumarkaði numið 10% (úr 107.439 ársverkum árið 2000 í 118.706 ársverk árið 2014 samkvæmt áætlun byggðri m.a. á tölum frá Seðlabanka Íslands). Aukning í fjölda opinberra starfsmanna á tímabilinu er því nær þreföld á við almennan vinnumarkað.

Viðskiptaráð fagnar umræðu um aðhald í opinberum rekstri, sem hefur ekki verið í nægjanlegum forgrunni á undanförnum árum. Með því að reka hið opinbera með hagkvæmari hætti skapast sterkari langtímagrundvöllur til að veita opinberum starfsmönnum samkeppnishæf launakjör. Þetta hlýtur jafnframt að vera meginmarkmið launþegasamtaka opinberra starfsmanna fremur en áhersla á að viðhalda fjölda opinberra starfa. Það er því von Viðskiptaráðs að BSRB taki virkari þátt í umræðu um tækifæri til hagkvæmari rekstrar hins opinbera á komandi árum.

Tengt efni

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Stuðningsstuðullinn lækkar

Jákvæð þróun á vinnumarkaði - Stuðningsstuðullinn mældist 1,3 í fyrra og lækkaði ...
10. nóv 2023