Opin umræða um fjárfestingu og gjaldeyrishöft

Rúmlega 90 manns sóttu morgunverðarfund Viðskiptaráðs um fjárfestingaumhverfið hér á landi sem fram fór í morgun. Yfirskrift fundarins var Er Ísland opið fyrir fjárfestingu - Frá orðum til athafna, en þar fluttu erindi þeir Arnór Sighvatsson aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands, Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls og Páll Harðarsonar forstöðumaður rekstrarsviðs Kauphallar Íslands. Páll kom í stað Þórðar Friðjónssonar sem forfallaðist vegna veikinda. Þátttakendur í pallborði voru auk frummælenda þau Agnar Hansson forstöðumaður markaðsviðskipta hjá H.F. Verðbréfum, Kristinn Hafliðason  verkefnisstjóri hjá Fjárfestingarstofu og Tanya Zharov lögfræðingur Auðar Capital.


Fjárfestar kröfuharðir og varfærnir

Það þarf að leggja mun meiri áhersla á gagnsæi en áður í fjárfestingaumhverfinu, en fjárfestar eru bæði kröfuharðir og varfærnir um þessar mundir. Þetta kom fram í máli Páls Harðarsonar. Hann nefndi einnig að mikilvægt væri að aukin áhersla væri á góða stjórnarhætti í fyrirtækjum og stofnunum. Þess má geta í því samhengi að nýlega voru gefnar út uppfærðar leiðbeiningar um stjórnarhætti sem hægt er að nálgast hér.

Páll kom enn fremur inn á mikilvægi þess að við sköpum hagvaxtarvæn skilyrði hér á landi, en helsta ógnin við hagvöxt er óskilvirkt skipulag atvinnulífs. Markmiðin ættu að vera að eftir fimm ár væri hér vel skipulagður markaðsbúskapur, ríkisbúskapur þyrfti að vera í jafnvægi, stjórn peningamála í góðu horfi og að sama skapi viðunandi jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd. „Við erum nær sumum þessara markmiða en öðrum, en í dag búum við tæplega við það sem kallast getur vel skipulagður markaðsbúskapur“ sagði Páll.

Gjaldeyrishöftin hamla flæði fjárfestinga
Ragnar Guðmundsson talaði um að þrátt fyrir allt væri hér margt sem stuðli að jákvæðu fjárfestingaumhverfi, menntunarstig á Íslandi sé hátt og samskipti á vinnumarkaði góð. „Ísland er þróað samfélag með hátt tekjustig“ sagði Ragnar. Hann nefndi jafnframt að núverandi gjaldeyrishöft hamli ekki einungis flæði fjármagns frá landinu heldur hamli þau líka flæði fjárfestinga hingað til lands.

„Frá sjónarhóli fjárfesta þarf að skoða hlutina í víðara samhengi, m.a. frá sjónarhóli samkeppnismála og heildarmyndar fyrirtækis. Við þurfum að horfa til þess sem við höfum reynslu og þekkingu á.“

Ragnar benti á að nú þyrftum við að leggja áherslu á það sem Íslendingar gera vel og getur skapað atvinnu í núverandi árferði. „Haga þarf uppbyggingu hagkerfisins með þeim hætti að það skapi atvinnu fyrir þá aðila sem mest þurfa á því að halda“ sagði hann.

AGS forsenda þess að erlendir fjárfestar leiti hingað
Arnór Sighvatsson rifjaði upp að á sínum tíma þóttu aðrar leiðir en gjaldeyrishöft of áhættumiklar, en þó er mikilvægt að hafa það í huga afnema þurfi höftin um leið og mögulegt er. Þó að höftin hafi stuðlað að meiri stöðugleika í gengismálum, þá eru þau engan veginn álitlegur kostur til lengri tíma.

Arnór minnti einnig á það að höftin sem slík eru brot á alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.

Verkefnin framundan eru þau að móta þarf aðhaldssama stefnu í ríkisfjármálum og sýna fram á að skuldastaða ríkissjóðs sé sjálfbær til frambúðar. Varðandi AGS sagði Arnór að sjóðurinn væri einskonar vottunarstofa landa sem rata í efnahagslegar ógöngur og í mörgum tilfellum er sú vottun forsenda þess að erlendir fjárfestar komi til landsins. Mikilvægt er að taka fyrstu skrefin til afnáms haftanna sem fyrst, sagði Arnór, og minnti jafnframt á að lokum að „skjótt skipast veður í lofti“.

Fundarstjóri var Benedikt Jóhannesson ritstjóri Vísbendingar en Tómas Már Sigurðsson formaður Viðskiptaráðs setti fundinn.

Glærur frá fundinum:
Arnór Sighvatsson - Ræða Arnórs á Sedlabanki.is
Páll Harðarson
Ragnar Guðmundsson

Tengt efni

Hið opinbera: Get ég aðstoðað?

Viðskiptaþing 2024 fer fram 8. febrúar á Hilton Reykjavík Nordica og hefst kl. ...
16. jan 2024

Viðskiptaþing 2024

Viðskiptaþing 2024 fer fram 8. febrúar á Hilton Reykjavík Nordica og hefst kl. ...
8. feb 2024

Hagsmunamál að fæla ekki burt erlenda fjárfestingu

Umsögn Viðskiptaráðs um áform um lagasetningu um rýni á erlendum fjárfestingum ...
10. júl 2022