Fjölmiðlafrumvarpið: hunsar Alþingi Samkeppniseftirlitið?

Fyrir menntamálanefnd Alþingis liggur nú frumvarp til laga um fjölmiðla, en Viðskiptaráð hefur líkt og fleiri aðilar skilað inn umsögn um frumvarpið. Meginathugasemdir ráðsins lúta að aðgerðaleysi stjórnvalda við að jafna samkeppnisskilyrði einkarekinna fjölmiðla og RÚV. Þrátt fyrir að frumvarpið feli í sér heildarlöggjöf á sviði fjölmiðla þá er þannig hvergi vikið að samkeppnissjónarmiðum né heldur er tækifærið nýtt til að takmarka verulega aðkomu RÚV að auglýsingamarkaði.

Eins og Viðskiptaráð benti á í umsögn sinni þá fær álit Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2008, er varðar háttsemi RÚV á auglýsingamarkaði, litla sem enga umfjöllun í frumvarpinu þrátt fyrir að það sé á 400 hundrað blaðsíður. Í áliti þessu komst eftirlitið meðal annars að þeirri niðurstöðu að rekstrarfyrirkomulag RÚV gangi gegn markmiðum samkeppnislaga um að efla virka samkeppni og að þær tekjur af almannafé sem RÚV nýtur veiti félaginu forgjöf til að kaupa vinsælt sjónvarpsefni og þar með forréttindi á auglýsingamarkaði. Auk þessa var það mat eftirlitsins að RÚV hefði sýnt samkeppnishamlandi hegðan á auglýsingarmarkaði og að þátttaka félagsins á þeim markaði sé veigamikil ástæða þess að ekki séu fleiri öflugir fjölmiðlar hérlendis og eignarhald þeirra ekki dreifðara. Því mætti efla samkeppni og fjölga valkostum neytanda með takmarkaðri aðkomu RÚV að auglýsingamarkaði.

Í ljósi þess að varnarorð Samkeppniseftirlitsins verða vart afdráttarlausari er það von Viðskiptaráðs að menntamálanefnd og Alþingi bregðist við með umtalsverðum breytingum á frumvarpinu.

Álit Samkeppniseftirlitsins má nálgast hér.
Umsögn Viðskiptaráðs má nálgast hér.

Tengt efni

Erfið samkeppnisstaða einkarekinna fjölmiðla

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um ráðstöfun útvarpsgjalds (mál nr. 129)
15. mar 2023

Jafna þarf stöðu innlendra og erlendra fjölmiðla

Skoðun Viðskiptaráðs á stuðningi við einkarekna fjölmiðla (mál nr. 543)
10. jan 2023

Skoða þarf fleiri hliðar á samkeppnisumhverfi íslenskra fjölmiðla

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið.
16. feb 2022