Bæta þarf upplýsingagjöf atvinnulífsins

Viðskiptaráð hefur undanfarin misseri hvatt aðildarfélaga sína og önnur fyrirtæki til að afhenda ársreikninga innan lögbundinna tímaramma, en umtalsverð vanhöld hafa verið þar á undanfarin ár eins og vanskilalisti ársreikningaskrár ber með sér. Að baki þessum tilmælum ráðsins liggja tvær ástæður sem annars vegar lúta að beinum hagsmunum tiltekinna fyrirtækja og hins vegar að heildarhagsmunum atvinnulífs og samfélags.

Fjárhagsupplýsingar grundvöllur trygginga
Takmörkuð skil á fjárhagsupplýsingum hafa þegar haft víðtæk áhrif á möguleika íslenskra fyrirtækja til að afla sér greiðslutrygginga frá alþjóðlegum fyrirtækjum. Stuttu eftir fall bankanna var beinlínis lokað á slíkar tryggingar af hálfu stærstu aðila á þessu sviði og skipti þar mestu að þeir höfðu ekki aðgengi að lágmarksupplýsingum um rekstrarhæfi fjölda íslenskra fyrirtækja. Þrátt fyrir að eitthvað hafi þokast til í þessum efnum undanfarna mánuði er umhverfið enn óhagstætt mörgum fyrirtækjum.

Íslenskt atvinnulíf þarf að gera verulega bragarbót hér á til að að halda sér tryggingarhæfu í augum þessara fyrirtækja og eiga þar með greiðari samskipti við erlenda viðskiptaaðila sína.

Slök upplýsingaskil tilefni vantrausts
Þá verður ekki undan því litið að ásýnd atvinnulífsins, hér heima og erlendis, ræðst að stórum hluta af vilja fyrirtækja til að upplýsa um helstu atriði í sínum rekstri. Á þessum upplýsingum byggja fjárfestar ákvarðanir, fjölmiðlar umfjöllun, almenningur afstöðu og stjórnvöld aðgerðir sínar. Slök skil á fjárhagsupplýsingum byrgja þessum aðilum sýn á stöðu og þróun atvinnulífsins og eru því tilefni samskiptaörðugleika og vantrausts.

Reynsla síðustu missera sýnir að umhverfi sem einkennist af slíkri togstreitu er til skaða fyrir bróðurpart atvinnulífsins, jafnt þau fyrirtæki sem standa við lögbundnar kröfur og þau sem það gera ekki. Það er því ábyrgðarhluti alls atvinnulífsins að færa þessi mál til betri vegar hið fyrsta.

Samstarf við yfirvöld um lagasamræmingu
Vegna þeirra hagsmuna sem í húfi eru fyrir atvinnulífið munu Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins óska eftir samstarfi við fjármálaráðuneytið og ríkisskattstjóra um samræmingu á gildandi lagareglum um skil á ársreikningum við það sem gerist í samanburðarlöndum okkar.

Þar ber einna helst að nefna að ef vanskil ársreikninga verða umtalsverð þá verði fyrirtækjaskrá heimilt að afskrá viðkomandi fyrirtæki. Við það verður fyrirtækið rekið á persónulegri ábyrgð eigenda þess og stjórnarmanna.

Tengt efni

Samkeppnishæfni Íslands stendur í stað

Niðurstöður úttektar IMD háskóla á samkeppnishæfni ríkja voru kynntar á fundi ...
20. jún 2023

Tölur í tóma­rúmi og tíma­bundni banka­skatturinn

Skýrasta tækifærið til að bæta kjör landsmanna er að lækka bankaskattinn enn ...
16. maí 2023

Hagsmunamál að fæla ekki burt erlenda fjárfestingu

Umsögn Viðskiptaráðs um áform um lagasetningu um rýni á erlendum fjárfestingum ...
10. júl 2022