Sameining ráðuneyta: hagkvæm og táknræn tilhögun

Undanfarna daga hafa ríkisstjórnarflokkarnir rætt sín á milli um fyrirhugaða fækkun ráðuneyta, úr tólf í níu, í samræmi við umsamdar stjórnkerfisumbætur í samstarfsyfirlýsingu flokkanna. Einkum hefur verið rætt um að sameina heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytin í eitt velferðarráðuneyti og að atvinnuvegaráðuneyti verði stofnað utan um sjávarútvegs-, landbúnaðar og iðnaðarráðuneytin.

Viðskiptaráð Íslands fagnar þessum fyrirætlunum stjórnvalda enda eru kostir þeirra fjölmargir, en ráðið hefur áður lagt til að ráðuneytum verði fækkað í sjö. Í fyrsta lagi sparast með þessum aðgerðum ýmis rekstrarkostnaður, t.a.m. vegna húsnæðis ráðuneyta. Í annan stað sparast launakostnaður, en laun og launatengd gjöld vega þungt í rekstri ríkissjóðs. Í þriðja lagi myndi skapast svigrúm til að fækka alþingismönnum þar sem fleiri óbreyttir þingmenn sætu í kjölfarið á þingi. Í fjórða lagi gæfist tilefni til að endurskoða rekstur undirstofnana þeirra ráðuneyta sem myndu sameinast. Síðast en ekki síst er fækkun ráðuneyta táknræn fyrir nauðsyn þess að allir leggist á árarnar með öðrum opinberum stofnunum í yfirstandandi sparnaðarátaki ríkissjóðs.

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að halda áfram á þessari braut, með vandaðan undirbúning í forgrunni, og jafnframt til að leggja fram frumvörp í þessa veru eins fljótt og auðið er. Að mati ráðsins er mikilvægt, í vinnu við frumvarpssmíð um þessi mál, að vörður sé staðinn um áframhaldandi tekju- og verðmætasköpun þeirra atvinnuvega sem heyra undir þau ráðuneyti sem sameinst undir hatti nýs atvinnuvegaráðuneytis. Framvindu efnahagsmála á næstu misserum byggir á að þar takist vel til.

Tengt efni

Ný skoðun Viðskiptaráðs: Fæstum þykir sinn sjóður of þungur

Viðskiptaráð leggur fram 28 tillögur um hvernig megi hagræða í sjóðum ríkisins
1. mar 2024

Fæstum þykir sinn sjóður of þungur

Viðskiptaráð leggur fram 28 tillögur um hvernig megi hagræða í sjóðum ríkisins
1. mar 2024

Stígum skrefið til fulls - öllum til hagsbóta

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur (mál nr. 470)
2. jún 2022