Sameining ráðuneyta: hagkvæm og táknræn tilhögun

Undanfarna daga hafa ríkisstjórnarflokkarnir rætt sín á milli um fyrirhugaða fækkun ráðuneyta, úr tólf í níu, í samræmi við umsamdar stjórnkerfisumbætur í samstarfsyfirlýsingu flokkanna. Einkum hefur verið rætt um að sameina heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytin í eitt velferðarráðuneyti og að atvinnuvegaráðuneyti verði stofnað utan um sjávarútvegs-, landbúnaðar og iðnaðarráðuneytin.

Viðskiptaráð Íslands fagnar þessum fyrirætlunum stjórnvalda enda eru kostir þeirra fjölmargir, en ráðið hefur áður lagt til að ráðuneytum verði fækkað í sjö. Í fyrsta lagi sparast með þessum aðgerðum ýmis rekstrarkostnaður, t.a.m. vegna húsnæðis ráðuneyta. Í annan stað sparast launakostnaður, en laun og launatengd gjöld vega þungt í rekstri ríkissjóðs. Í þriðja lagi myndi skapast svigrúm til að fækka alþingismönnum þar sem fleiri óbreyttir þingmenn sætu í kjölfarið á þingi. Í fjórða lagi gæfist tilefni til að endurskoða rekstur undirstofnana þeirra ráðuneyta sem myndu sameinast. Síðast en ekki síst er fækkun ráðuneyta táknræn fyrir nauðsyn þess að allir leggist á árarnar með öðrum opinberum stofnunum í yfirstandandi sparnaðarátaki ríkissjóðs.

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að halda áfram á þessari braut, með vandaðan undirbúning í forgrunni, og jafnframt til að leggja fram frumvörp í þessa veru eins fljótt og auðið er. Að mati ráðsins er mikilvægt, í vinnu við frumvarpssmíð um þessi mál, að vörður sé staðinn um áframhaldandi tekju- og verðmætasköpun þeirra atvinnuvega sem heyra undir þau ráðuneyti sem sameinst undir hatti nýs atvinnuvegaráðuneytis. Framvindu efnahagsmála á næstu misserum byggir á að þar takist vel til.

Tengt efni

Breytingu ráðuneytis fagnað

Viðskiptaráð fagnar breyttri nálgun heilbrigðisráðuneytisins á fyrirhugaðri ...
2. sep 2021

Vafa eytt um réttaráhrif birtingar

Viðskiptaráð fagnar þeirri stefnumörkun stjórnvalda að gera þjónustu hins ...
16. apr 2021

Hagkvæmari leikreglur til bættra lífskjara

Regluverk leggst þyngst á smærri fyrirtæki, þar sem þau hafa síður bolmagn til ...
7. jan 2021