Samkeppnishæfni: Sterkir innviðir þrátt fyrir efnahagsáföll

Samkvæmt skýrslu IMD-viðskiptaháskólans í Sviss um samkeppnishæfni hagkerfa, er Ísland í þrítugasta sæti yfir samkeppnishæfustu hagkerfi heims. Singapúr, Hong Kong og Bandaríkin eru í þremur efstu sætunum, en afar lítill munur er á þjóðunum. 

IMD gefur árlega út skýrslu um samkeppnishæfni þjóða sem kallast IMD World Competitiveness Yearbook(WCY) sem talin er leiðandi í umfjöllun um samkeppnishæfni þjóða í heiminum og hefur verið gefin út óslitið frá árinu 1989. Viðskiptaráð Íslands í samvinnu við efnahags- og viðskiptaráðuneytið kynntu niðurstöður skýrslunnar á blaðamannafundi í gær. Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra, Björn Þór Arnarson hagfræðingur Viðskiptaráðs og Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans og stjórnarmaður í Viðskiptaráði, fjölluðu um megin niðurstöður skýrslunnar út frá sjónarhóli Íslands. Glærur af fundinum má nálgast hér.

Megin veikleikar Íslands má eðli máls samkvæmt rekja til efnahagskreppunnar, þ.e. slaks fjárfestingaumhverfis, fjármálalegs óstöðugleika og annarra fjármálalegra þátta. Helsti styrkleiki Íslands er fólginn í sterkum samfélagslegum innviðum, en þar er Ísland í 9. sæti í könnuninni sem er svipað og hjá hinum Norðurlöndin. Sterkir innviðir í samfélaginu auðvelda vöxt á komandi árum og skapa gnótt möguleika. Endurreisn fjármálakerfisins og endurkoma eðlilegrar fjármálastarfsemi mun svo koma til með að hafa mjög jákvæð áhrif á samkeppnishæfni þjóðarinnar á næstu árum. Sömu sögu er hægt að segja ef unnt verður að loka fjárlagagatinu árið 2013 og ná jöfnuði í fjármálum hins opinbera. Endurskoðun á umgjörð peningastefnunnar og uppbygging trúverðugleika Seðlabanks er einnig hafin sem ætti að skila sér í bættri samkeppnishæfni.

Mikilvægt er að líta á niðurstöður könnunarinnar í ár sem gagnlegan viðmiðunarpunkt fyrir komandi misseri, til að meta hvað þarf að fara betur, hvað hefur verið gert vel og hvað má bæta enn frekar. Þrátt fyrir skakkaföll undanfarinna 20 mánaða þá er sá grunnur sem samkeppnishæfni þjóðarinnar byggir nú á sterkur og góður grundvöllur uppbyggingar til framtíðar. Uppbyggingarverkefnið er vissulega ærið og verða samvinna og heildarhagsmunir að vera í forgrunni þess.

Álagspróf á skuldabyrði þjóða – ásættanleg skuldastaða 2032
Í ár er einnig bryddað upp á þeirri nýbreytni að gera álagspróf á skuldastöðu þjóða. Í því prófi er spáð fyrir um það hvenær skuldir þjóða muni ná viðráðanlegu stigi (um 60% af landsframleiðslu). Mun þetta vera í fyrsta skipti sem IMD tekur saman upplýsingar um þetta málefni. Við gerð álagsprófsins er gert ráð fyrir að jöfnuður í fjármálum hins opinbera náist árið 2015 og lönd muni verja um 1% af landsframleiðslu til að greiða niður skuldir.

Samkvæmt úttekt IMD mun Ísland ná þeim áfanga árið 2032, einu ári á undan Bandaríkjunum. Japan rekur lestina og mun þurfa að greiða niður skuldir til ársins 2084 til að ná ásættanlegri skuldabyrði og Ítalía til ársins 2060. Ef forsendur frá í samkomulagi AGS og ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum árið 2013 þá má telja víst að staðan verði betri en þessar niðurstöður gefa til kynna. Á blaðamannafundinum í gær benti Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra á að við þessa útreikninga er miðað við vergar skuldir (heildarskuldir) hins opinbera í stað hreinna, en sé miðað við hreinar skuldir þá er staðan betri.

Ljóst má vera að skuldastaða hins opinbera hefur skaðleg áhrif á samkeppnishæfni. Trúverðug og raunhæf áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum og fjármögnun hins opinbera mun því koma til með að styðja við bætta samkeppnishæfni.

Um IMD World Competitiveness Yearbook (WCY)
Skýrslan er unnin af svissneska viðskiptaháskólanum Institute for Management Development (IMD) en hann er talinn einn fremsti viðskiptaháskóli í Evrópu. IMD gefur árlega út skýrslu um samkeppnishæfni þjóða sem kallast IMD World Competitiveness Yearbook (WCY) sem talin er leiðandi í umfjöllun um samkeppnishæfni þjóða í heiminum og hefur verið gefin út óslitið frá árinu 1989.

Skýrsla IMD um samkeppnishæfni þjóða byggir á fjórum megin stoðum: 

  • Efnahagsleg frammistaða
  • Samfélagslegir innviðir
  • Skilvirkni stjórnvalda
  • Skilvirkni atvinnulífsins

Skýrslan er byggð á yfir 300 hagvísum auk könnunar meðal stjórnenda í atvinnulífinu. Haggögnin vega 2/3 á móti 1/3 sem byggja á svörum stjórnenda í atvinnulífinu. Alls eru 58 hagkerfi metin i könnuninni og eru þau öll vestræn eða önnur þróuð hagkerfi.

Nánari upplýsingar um niðurstöður könnunarinnar veitir Björn Þór Arnarson, hagfræðingur Viðskiptaráðs (bjorn@vi.is, s. 510-7107)

Tengt efni

Samkeppnishæfni Íslands minnkar á milli ára

Ísland fellur um eitt sæti milli ára í samkeppnishæfni og situr í 17. sæti af 67 ...
20. jún 2024

Eignarhald íslenska ríkisins á skjön við önnur vestræn ríki 

„Að mati Viðskiptaráðs á hið opinbera ekki að stunda atvinnurekstur sem aðrir ...
12. mar 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtækjum í stjórnarháttum veitt viðurkenning

Hópur fyrirtækja í fjölbreyttri starfsemi hlaut í dag verðlaun fyrir góða ...
22. ágú 2023