Skattahækkanir á leiðarenda

Í umræðunni að undanförnu um nauðsynlega hagræðingu í opinberum fjármálum hafa fulltrúar ríkisstjórnarinnar látið ummæli falla í þá veru að til standi að auka skatta á atvinnulífið enn frekar og eru þar nefndar tölur upp á ríflega tug milljarð. Viðskiptaráð vill í því samhengi benda á að megin þungi í aðgerðum stjórnvalda til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum hefur hingað til falist í skattahækkunum. Viðskiptaráð hafnar því hugmyndum um frekari hækkun skatta á þessum tímapunkti og telur að rými til skattahækkana hafi verið nýtt til fulls og vel það. Skatthækkanir, sem lausn á fjármálavanda hins opinbera, eru komnar á leiðarenda og brýnt að draga úr útgjöldum í stað þess að hækka skatta.

Deyfilyf á veikt hagkerfi
Auknir skattar, og sérstaklega nýir skattar, á þessum viðkvæma tímapunkti í endurreisnarstarfinu eru afar skaðlegir og vega að framtíðartekjumöguleikum ríkissjóðs. Efla þarf atvinnulífið til að styrkja tekjustofna hins opinbera til framtíðar og það verður ekki gert með aukinni skattheimtu umfram það sem nú þegar hefur verið gert. Sem dæmi hafa skattahækkanir á áfengi  ekki verið að skila sér líkt og vænst var eftir sökum samdráttar í sölu. Í hagfræði er talað um að vara sé nauðsynjavara ef mikil verðhækkun hefur lítil áhrif á neyslu og er áfengi jafnan talin vera nauðsynjavara samkvæmt þeirri skilgreiningu. Hins vegar bendir samdráttur í sölu til þess að heimabrugg og smygl hafi aukist þar sem afar ólíklegt er að neysla hafi dregist jafn mikið saman. Auknir skattar ýta undir frekari svarta atvinnustarfssemi í hagkerfinu og leiða því til þess að auknar álögur skila sér ekki í þeirri tekjuaukningu sem vænst er eftir.

Skattahækkanir á þessum tímapunkti verka í raun sem deyfilyf á veikt hagkerfið og gera því fátt annað en að hægja enn frekar á gangverki efnahagslífsins. Auknar byrðar í formi skattahækkana á atvinnulífið vinna þar af leiðandi gegn því sameiginlega markmiði að efla hagvöxt hérlendis á komandi árum og tryggja atvinnu- og velferðarþjónustu.

Miklar skattahækkanir frá bankahruni
Eftir bankahrunið var ráðist í gagngera uppstokkun á skattkerfinu þar sem skattar voru hækkaðir, nýir skattar lagðir á fyrirtæki og einstaklinga auk tæknilegra breytinga sem skiluðu sér þó einungis að hluta í auknum tekjum til ríkissjóðs. Meðal þeirra hækkana sem nú þegar hefur verið gripið til má nefna hækkun fjármagnstekjuskatts um 80% - úr 10% í 18%, hækkun tekjuskatts fyrirtækja úr 15% í 18%, tryggingagjald úr 5,34% í 8,6% auk þess sem þrepaskipt tekjuskattskerfi hefur verið tekið upp og virðisaukaskattur hækkaður. Þar að auki var nýr auðlegðarskattur lagður á hreina eign umfram 120 milljónir króna.

Svigrúm til aðlögunar útgjalda
Í tölum frá OECD kemur fram að útgjöld Íslands sem hlutfall af landsframleiðslu eru þau hæstu meðal ríkja stofnunarinnar. Það ætti ekki að koma á óvart þar sem útgjöld hins opinbera hafa vaxið um 50% að raungildi frá árinu 2000 að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Þó niðurskurður útgjalda geti aldrei verið sársaukalaus, þá er svigrúm til staðar. Útgjaldaþróun hins opinbera hefur verið á skjön við þróun annarra ríkja innan OECD. Þannig hafa útgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu heldur dregist saman meðal OECD ríkja á sama tíma og þau hafa vaxið hérlendis, sérstaklega þegar horft er yfir lengra tímabil.

Eins og stjórnvöld hafa þegar boðað er tími niðurskurðar runnin upp.  Skattahækkanir, umfram þær sem nú þegar hefur verið gripið til, munu draga mátt úr hagkerfinu og vega að sjálbærni þess til lengri tíma. Sú leið er því ekki lengur fær.

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Keppni án verðlauna

Við fáum engin verðlaun fyrir að vera kaþólskari en páfinn
12. júl 2023