Takmarkanir á erlendri fjárfestingu

Ísland er nú í 2. sæti á lista yfir þau aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) sem hafa hvað mestar takmarkanir á beinni fjárfestingu erlendra aðila. Mestu hömlurnar eru í Kína, en næst á eftir Íslandi koma Rússland og Sádi-Arabía.

Síðast þegar sambærileg skýrsla var tekin saman af OECD árið 2006 var Ísland í sama sæti og nú. Orsök slaks árangurs má þannig vart finna í bankahruninu og upptöku gjaldeyrishafta í kjölfar þess.

Ísland er því almennt eftirbátur annarra ríkja þegar kemur að umgjörð erlendrar fjárfestingar í alþjóðlegu samhengi og fer því fjarri að erlendir fjárfestar eigi greiða leið að tækifærum til að ávaxta fé sitt hér á landi. Stjórnvöld hafa þó sjálf lýst mikilvægi erlendrar fjárfestingar í nýlegu stjórnarfrumvarpi til laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, en þar sagði að “Verðmætaáhrif af erlendri fjárfestingu eru nýsköpun og þekking, viðskiptatengsl, atvinnuþróun, skatttekjur og aukið fjármagnsflæði.”

Pólitísk afskipti draga úr tiltrú fjárfesta á Íslandi
Fjárfesting innlendra aðila hefur dregist mikið saman frá bankahruni auk þess sem erlend fjárfesting hefur verið í lágmarki. Svo virðist sem erlent fjármagn sé í mörgum tilvikum ekki velkomið og að megn tortryggni ríki gagnvart erlendum aðilum sem hafa áhuga á að fjárfesta hérlendis.

Atburðir undanfarinna vikna munu ekki efla tiltrú erlendra fjárfesta á Íslandi sem fjárfestingarkosts. Eðlilegt er að spyrja sig hvort margir fjárfestar, innlendir eða erlendir, muni yfir höfuð hætta á að fjárfesta hérlendis á komandi árum af ótta við óeðlileg pólitísk afskipti. Fordæmið sem slík afskipti skapa geta verið afar skaðleg enda tekur langan tíma að byggja upp orðspor og traust sem eyðileggja má í einni svipan með vanhugsuðum og skammsýnum aðgerðum.

Er Ísland opið fyrir fjárfestingu?
Aðgerðir stjórnvalda varðandi erlenda fjárfestingu hafa verið mikið í kastljósinu síðustu misseri, en í síðustu viku gaf Viðskiptaráð út skoðunina „Er Ísland opið fyrir fjárfestingu?“. Þar er hvatt til þess að mótuð verði stefna sem stuðli að því að efla hagvöxt og bæta þannig lífskjör hérlendis á komandi árum. Skoðunina í heild sinni má nálgast hér.

Tengt efni

Erfið samkeppnisstaða einkarekinna fjölmiðla

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um ráðstöfun útvarpsgjalds (mál nr. 129)
15. mar 2023

Hagsmunamál að fæla ekki burt erlenda fjárfestingu

Umsögn Viðskiptaráðs um áform um lagasetningu um rýni á erlendum fjárfestingum ...
10. júl 2022

Aðkoma einkaaðila stuðlar að nauðsynlegri uppbyggingu á landsvæði ríkisins

Aðkoma einkaaðila og aukin fjárfesting þeirra getur stuðlað að nauðsynlegri ...
10. des 2020