Veiking skattstofna en jákvæð vaxtalækkun

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði vexti bankans um 1 prósentustig í morgun. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækka í 5,5%, hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum í 6,75%, vextir á lánum gegn veði til sjö daga í 7,0% og daglánavextir í 8,5%.

„Stýrivaxtalækkun Seðlabankans er jákvæð og eðlileg miðað við þann hraða samdrátt í verðbólgu sem átt hefur sér stað undanfarið. Töluverður framleiðsluslaki er enn í hagkerfinu um þessar mundir og brýnt er að reyna að nýta þá vannýttu framleiðslugetu sem er til staðar,“ segir Björn Þór Arnarson hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.

Hann bendir á að atvinnuleysi sé enn hátt og fjárfesting töluvert minni en æskilegt væri við þessar aðstæður. Þó ganga þurfi lengra þá er lækkun stýrivaxta nú mikilvægt skref til að efla atvinnulífið á komandi mánuðum.

Skattstofnar veikjast
Fyrr í dag var einnig gefin út greiðsluafkoma ríkissjóðs fyrir fyrstu sex mánuði ársins. Þar kemur fram að reglulegar tekjur hins opinbera eru tæpum þremur milljörðum undir áætlun fjárlaga og margir skattstofnar eru að gefa eftir. Vegna mikilla hækkana á gjöldum hafa nokkrir þeirra þó skilað auknum tekjum en með neikvæðum áhrifum á undirliggjandi skattstofna. Má glögglega sjá þetta í greiðsluafkomu ríkissjóðs en þar er bent á nokkra skattstofna sem dregist hafa saman:
  • Áfengisgjald um 9,4%
  • Tóbak um 15,9%
  • Olíugjald um 4,1%
  • Bensín um 5,9%
  • Tryggingargjald um 1,1%

„Af þessu má greina að þær hækkanir sem ráðist hefur verið í eru ekki að skila tilætluðum árangri. Það er ákveðið áhyggjuefni að skattstofnar eru að dragast svo mikið saman á tíma þegar mikilvægt er að hið opinbera afli tekna á hagkvæman máta og viðhaldi þeim skattstofnum sem eru til staðar,“ segir Björn og bendir á því til stuðnings að tekjur af áfengis og tóbaksgjaldi eru undir áætlun fjárlaga 

Viðskiptaráð og aðilar atvinnulífsins hafa undanfarin misseri bent á aðrar leiðir í fjármálum hins opinbera sem stuðli að því að viðhalda núverandi skattstofnum.  Tillögur þess efnis má m.a. annars sjá í skýrslu Viðskiptaráðs frá því í desember 2009, Fjármál hins opinbera - Aðrar leiðir færar, sem og skýrslu frá því í júní 2008 er ber heitið Útþensla hins opinbera: orsakir, afleiðingar og úrbætur. Þar að auki hefur Viðskiptaráð gefið út fjölmargar skoðanir um fjármál hins opinbera og nauðsynlegar úrbætur. Þær má nálgast hér.

Nánari upplýsingar veitir Björn Þór Arnarson hagfræðingur Viðskiptaráðs í síma 510-7100.

Tengt efni

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Stuðningsstuðullinn lækkar

Jákvæð þróun á vinnumarkaði - Stuðningsstuðullinn mældist 1,3 í fyrra og lækkaði ...
10. nóv 2023

Fermingaráhrifin

Svanhildur Hólm fer yfir fermingaráhrif í efnahagslegu samhengi.
12. apr 2024