Mikilvægt að takmarka verulega umsvif RÚV á auglýsingamarkaði

Meirihluti menntamálanefndar hefur nú skilað áliti sínu vegna fjölmiðlafrumvarps menntamálaráðherra, sem liggur nú fyrir hjá Alþingi. Það sem er athygliverðast er að meirihlutinn telur að takmarka þurfi umsvif RÚV á auglýsingamarkaði til að unnt sé að tryggja fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum.

„Viðskiptaráð tekur heilshugar undir álit meirihlutans hvað þetta varðar, en ráðið lagði á það töluverða áherslu í umsögn sinni við frumvarpið að tekið yrði á þeim samkeppnisröskunum er leiða af þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði. Það sætti furðu að okkar mati að í tæplega 400 blaðsíðna frumvarpi um þetta mikilvægan málaflokk hafi verið skautað framhjá afdráttarlausu áliti Samkeppniseftirlitsins á þessum þætti í starfsemi RÚV.“ Segir Haraldur I. Birgisson aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Nefndin leggur til að starfshópur verði skipaður á haustmánuðum til að móta tillögur um verulega takmörkun á umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði skv. álitinu. Haraldur bendir á að slíkur starfshópur hafi verið að störfum árið 2008 og að tillögur hans hafi legið fyrir í frumvarpsformi það árið. Menntamálanefnd taldi hins vegar á þeim tíma tilefni til að tillögurnar yrðu útfærðar nánar og var hópnum falið að skila þeim fyrir 15. febrúar 2009.

„Það skýtur skökku við að stofna eigi nýjan starfshóp þegar sá fyrri hafði nær lokið störfum sínum fyrir rúmu ári. Þá verður jafnframt að hafa í huga að Samkeppniseftirlitið hefur þegar farið ítarlega yfir afleiðingar af þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði á samkeppni og lagt fyrir ráðherra sínar tillögur að breyttri skipan mála. Nýr starfshópur er því að mestu leyti óþarfur.“ Segir Haraldur.

Það að hreyfing sé aftur komin á málið er hins vegar jákvætt að áliti Viðskiptaráðs - en það er afar mikilvægt að hópurinn taki til starfa án tafar, að hann verði skipaður fulltrúum mismunandi hagsmunaaðila þ.m.t. einkarekinna fjölmiðla og að tillögugerð hans ljúki sem fyrst. Þá er ekki síður mikilvægt að hópurinn leiti fanga hjá Samkeppniseftirlitinu við mótun tillagna sinna.

Tengt efni

Aukin kostnaðarvitund almennings um tekjuöflun RÚV

Aukið gagnsæi þessarar skattheimtu eykur ekki aðeins kostnaðarvitund almennings ...
26. mar 2021

Ráðast þarf á rót vandans á íslenskum fjölmiðlamarkaði

Það er ekki aðeins á auglýsingamarkaði sem samkeppnisstaða RÚV hefur áhrif
5. feb 2021