Skattkerfi atvinnulífsins - Umræða óskast

Fjármálaráðherra skipaði starfshóp síðastliðið vor til að móta og setja fram heildstæðar tillögur um breytingar á skattkerfinu. Hópnum var upphaflega gefinn frestur til 15. júlí til að skila áfangaskýrslu en var sá frestur framlengdur til 31. ágúst. Nú þegar þrjár vikur eru liðnar frá því framlengdum skilafresti lauk og rúmir tveir mánuðir frá upphaflegum fresti hefur skýrslan enn ekki verið birt. Slíkar tafir á skilum eru óheppilegar og til þess fallnar að seinka og draga úr þeirri málefnalegu og uppbyggilegri umræðu sem þarf að eiga sér stað um skattkerfið hérlendis.

Næsta fimmtudag verður kynnt sameiginleg skýrsla Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins þar sem farið er yfir brotalamir í núverandi skattkerfi. Þar stóð til að fjalla efnislega um áfangaskýrslu ráðuneytisins en þar sem hún hefur enn ekki verið birt þá mun skýrslunni verða svarað efnislega síðar.

Aukið samráð og bætt ákvarðanataka
Undanfarin misseri hefur hið opinbera hækkað skatta og breytt reglum í takmörkuðu samráði við hagsmunaaðila. Margar af þeim breytingum sem ráðist var í voru vanhugsaðar. Það er hinsvegar ekki að undra að svo margt misfórst við fjárlagagerðina síðasta vetur ef horft er til þeirra vinnubragða sem viðhöfð voru. Verulega skorti á að stjórnvöld leituðu samráðs við fjárlagagerðina um þær breytingar sem gerðar voru á skattkerfinu. Alþingi sendi hagsmunaaðilum og sérfræðingum í skattamálum skattalagabreytingar til umsagnar og var umsagnaraðilum einungis gefnir tveir virkir dagar til að svara. Þrátt fyrir fjölda ábendinga, á þeim skamma tíma sem umsagnaraðilum var gefinn, þá voru breytingarnar samþykktar sem lög 11 dögum síðar með óverulegum lagfæringum. Vinnuferlið einkenndist af offorsi og af þeim völdum varð aldrei málefnaleg umræða um þær breytingar sem stóð til að innleiða. Þessu vinnulagi þarf að breyta.

Afleiðingar offorsins
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) vann að beiðni fjármálaráðherra skýrslu um íslenska skattkerfið sem birt var í byrjun júlí 2010. Í skýrslunni er að finna yfirgripsmikla úttekt á íslenska skattkerfinu og það borið saman við skattkerfi nágrannalanda. Við lestur skýrslunnar má greina afleiðingar offorsins við fjárlagagerð síðasta árs í fjölmörgum ábendingum starfshóps AGS. Í skýrslunni má finna tillögur um æskilegar breytingar á skattkerfinu og vekur það nokkra athygli að margar af þeim tillögum lúta að því að vinda ofan af breytingum sem gerðar voru á skattkerfinu á síðasta ári.

Upplýst og málefnaleg umræða um skattkerfið - Opinn fundur á fimmtudag
Næsta fimmtudag (23. september) munu Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins kynna sameiginlega skýrslu á opnum morgunverðarfundi. Skýrslan er framlag samtakanna til að bæta skattalega umgjörð atvinnulífsins þar sem bent er á fjölda brotalama í núverandi kerfi og tillögur til úrbóta kynntar. Málefnalegt samráð og samstarf milli stjórnvalda og atvinnulífsins dregur úr hættu á því að vanhugsaðar og skaðlegar breytingar nái fram að ganga. Slíkt samráð þarf að efla og með þessari skýrslu vilja SA og VÍ leggja sitt af mörkum til að stuðla að því og um leið koma af stað efnislegri umræðu um skattkerfið.

Tengt efni

Nýjar tillögur starfshóps gegn gullhúðun

Tillögur starfshóps miða að því að auka gæði lagasetningar við innleiðingu ...
19. jún 2024

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Engan ærsladraug í Karphúsið

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, fer yfir stöðu mála í kjaraviðræðum aðila ...
29. jan 2024