Skattabreytingar - Vegferð í ranga átt

Í byrjun júlí birti AGS skýrslu um skattkerfið hér á landi. Þar mátti finna fjölmargar ábendingar um breytingar á kerfinu, en megin niðurstaða athugunar sjóðsins var að skattkerfið sem byggt hafi verið upp hérlendis undanfarna áratugi innihéldi flesta þá þætti sem einkenni skattkerfi í fremstu röð.

Í skýrslunni má finna fjölda gagnlegra og uppbyggilegra ábendinga um frávik frá alþjóðlegum venjum í íslensku skattkerfi. Nokkra athygli vekur að töluverður fjöldi athugasemda AGS lúta að þeim breytingum sem gerðar voru á skattkerfinu í kjölfar bankahrunsins. Í sumum tilvikum er hreinlega lagt til að breytingarnar gangi til baka eða að gerðar verði umtalsverðar lagfæringar á framkvæmd þeirra. Vekur það upp spurningar hvort sú vegferð sem núverandi ríkisstjórn hóf í skattamálum hafi verið rétt og hugsuð til enda.

Meðal brotalama sem AGS bendir á og rekja má til breytinga sem gerðar voru á skattkerfinu síðustu misserin má nefna:

  • Breytingar á frádráttarbærni arðs og söluhagnaðar
  • Afdráttarskattur á vaxtagreiðslur til erlendra aðila
  • Skattlagning fámennisfélaga
  • Auðlegðarskattur

Fjármálaráðherra lét þau orð falla fyrir útgáfu skýrslu AGS að gagnrýnendur skattkerfisins fengju ekki liðstyrk í skýrslunni. Ekki er ljóst til hvers ráðherra vísar þar, því í skýrslunni er lögð áhersla á einfaldleika skattkerfisins og í henni eru margar af þeim breytingum sem ríkisstjórnin kynnti gagnrýndar. Í röðum atvinnulífs hefur bróðurpartur þeirra breytinga verið gagnrýndur, m.a. á þeim forsendum að þær hafi flækt skattaumhverfið og aukið á byrðar fyrirtækja og almennings. Með breytingunum hafi skattkerfið verið fært mörg ár aftur í tímann og um leið fórnað að miklu leyti þeim jákvæðum einkennum kerfisins sem AGS lýsti í skýrslu sinni.

Snúa þarf hið fyrsta af þessari vegferð. Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins munu á morgun, fimmtudaginn 23. september, leggja sitt af mörkum til að svo megi verða. Þá munu samtökin kynna á opnum morgunverðarfundi sameiginlega skýrslu um skattkerfið. Í skýrslunni er að finna tillögur að margvíslegum umbótum sem hafa það að markmiði að efla fjárfestingu, auka atvinnu og bæta lífskjör. Tillögurnar ganga þannig að mestu í takt við áherslur AGS – að lágmarka skaðleg áhrif á atvinnustig og hagvöxt og fjarlægja þætti sem ekki samræmast alþjóðlegri venju.

Málefnaleg og upplýst umræða um fjárlagagerðina og skattkerfið þarf að eiga sér stað núna. Að henni þurfa sem flestir aðilar að koma með virkum hætti. Það er von samtakanna að fundurinn og skýrslan muni varða braut slíkrar umræðu og samtöðu um hagkvæmar áherslur til skemmri og lengri tíma.