Aukið samráð ríkis og sveitarfélaga í efnahagsmálum nauðsynlegt

Á landsþingi Sambands sveitarfélaga eru nú til umræðu tillögur um nánari samvinnu ríkis og sveitarfélaga í efnahagsmálum. Tillögurnar hafa verið unnar af samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga og lúta þær einkum að gerð hagstjórnarsamnings, upptöku fjármálareglna og aukinni upplýsingagjöf.

Viðskiptaráð Íslands fagnar þessu framtaki samráðsnefndarinnar og telur afar mikilvægt að tillögurnar nái í meginatriðum fram að ganga. Mikilvægi sveitarfélaga í rekstri hins opinbera hefur vaxið undanfarin ár, en þau hafa um langt skeið staðið fyrir um þriðjungi af heildarútgjöldum þess. Vegna þess hefur reynst enn erfiðara að sporna við útgjaldaaukningu opinberra aðila og samhæfing efnahagsstjórnar hefur verið flóknari en ella. Núverandi löggjöf um fjármál sveitarstjórna er tiltölulega áhrifalítil og hefur því ekki gagnast að þessu leyti. Auk þess sem ólík stærð og fjöldi sveitarfélaga hefur gert vandamálið enn erfiðara.

Ganga hefði þurft lengra
Útgjaldaþensla, takmarkaður tekjuafgangur og skuldsetning margra sveitarfélaga sýnir svo ekki verður um villst að grípa þarf til aðgerða. "Viðskiptaráð setti fram í skýrslu sinni Fjármál hins opinbera – aðrar leiðir færar tillögur til úrbóta á þessu sviði og hafa fleiri aðilar gert slíkt hið sama. Það er von ráðsins að með skýrslu samráðsnefndarinnar skapist breið samstaða um þær aðgerðir sem þarf að ráðast í. Samráðsnefndin hefði hins vegar í nokkrum tillögum sínum þurft að ganga enn lengra." segir Haraldur I. Birgisson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. "Má þar m.a. nefna að:

  • Sveitarfélögum ætti að vera skylt að ná jafnvægi milli rekstrartekna og gjalda á hverju ári í stað þriggja eins og lagt er til (jafnvægisreglan).
  • Takmarka ætti enn frekar hámarkshlutfall skulda og skuldbindinga sveitarfélaga af skilgreindum tekjum þeirra og miða þar við 125% í stað 150% (skuldaregla).
  • Taka ætti alfarið fyrir skuldsetningu sveitarfélaga í erlendri mynt, en tillögurnar takmarka ekki slíkar lántökur standi sveitarfélög við jafnvægisregluna og skuldaregluna.
  • Innleiða þarf bindandi útgjaldaþak til nokkurra ára sem miðar við fastan nafnvöxt."

Þá er óhjákvæmilegt að mati Viðskiptaráðs að frekari sameining sveitarfélaga verði skoðuð til hlítar á næstu misserum. Þrátt fyrir að þeim hafi fækkað ört síðustu áratugi eru þau enn tæplega 80 talsins og mikill munur á stærð þeirra. Af því leiðir talsverður aðstöðumunur milli þeirra til að sinna lögbundnu þjónustuframboði á skilvirkan og hagkvæman hátt. Með frekari sameiningum mætti jafnframt ná niður stjórnunarkostnaði auk þess að draga verulega úr tilgangi framlags ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Umræðuskjal nefndar samgönguráðherra og tillögur hennar eru afar gott innlegg í þá umræðu.

Í samræmi við tilmæli AGS
Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir 2. endurskoðun efnahagsáætlunarinnar er fjallað um stöðu sveitarfélaganna. Þar er tæpt á því að reynsla annarra ríkja veiti nokkur dæmi um hvernig megi auka framlag þeirra til hagstjórnarinnar. Er það mat sjóðsins að sveitarfélögin séu ráðandi þáttur opinberra útgjalda með talsverða fjárhagslega sjálfsstjórn. Þá sé Ísland meðal fárra ríkja OECD sem ekki eru með fjármálareglur auk þess sem engar takmarkanir séu á skuldsetningu sveitarfélaga og eftirlitsaðferðir vanþróaðar. Telur sjóðurinn að upptaka reglna um fjármál sveitarfélaganna geti aðstoðað í aðlöguninni framundan og takmarkað áhættu til lengri tíma litið.

Nánar um málið:

Tengt efni

Gríðarleg útgjaldaaukning aðeins gengið að hluta til baka

Umsögn Viðskiptaráðs um fjármálaáætlun 2024 - 2028
19. apr 2023

Ekki svigrúm til aukinna útgjalda

Umsögn Viðskiptaráðs um fjármálaáætlun
16. maí 2022

Fyllt upp í fjárlagagatið

Ef ríkisfjármálin voru á ystu nöf við fjárlagafrumvarpið má velta því upp hvort ...
17. des 2020