Lyftum umræðunni á hærra plan

Á skattafundi sem Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins stóðu fyrir fimmtudaginn 23. september síðastliðinn hélt fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, ræðu þar sem hann átaldi atvinnulífið fyrir áherslu sína á niðurskurð opinberra útgjalda. Benti ráðherra m.a. á að Breska viðskiptaráðið hafi lýst yfir áhyggjum af of miklum niðurskurði þar í landi. Í ræðu fjármálaráðherra sagði hann m.a:

„Af framangreindum ástæðum hefur það verið úrræði margra þjóða í yfirstandandi kreppu að auka ríkisútgjöld og það yfirleitt verið talið virkari leið til að hvetja efnahagslífið en að lækka skatta. Fræðimenn vestan hafs sem austan hafa gagnrýnt þau stjórnvöld sem um of hafa gripið til niðurskurðar vegna neikvæðra áhrifa sem það kann að hafa á efnahagslífið. Meira að segja Breska viðskiptaráðið hefur nýlega með hagfræðilegum rökum lýst áhyggjum af áformum bresku ríkisstjórnarinnar um niðurskurð opinberrar þjónustu.“

Ef marka má nýlega frétt af heimasíðu Breska viðskiptaráðsins um afstöðu til niðurskurðaráforma bresku ríkisstjórnarinnar má sjá að ráðherra fer þarna frjálslega með staðreyndir. Í fréttinni er aðgerðum breskra stjórnvalda til að taka á fjárlagahallanum hælt og þær sagðar nauðsynlegar en einnig er bent á að samhliða niðurskurði sé nauðsynlegt að til komi stefna til að styðja við innlendan vöxt og efla framleiðni í hagkerfinu. Jafnframt segir að atvinnulífið átti sig á því að samdráttur í halla hins opinbera, með sérstakri áherslu á niðurskurð, sé nauðsynlegur til að endurheimta traust, stöðugleika og trúverðugleika á alþjóðlegum grundvelli.

Breska viðskiptaráðið bendir einnig á að ef áætlun þarlendra stjórnvalda heppnist þá muni hún stuðla að sjálfbærum bata og skapa heilbrigðara hagkerfi til framtíðar. Hinsvegar geti of hraður niðurskurður aukið líkurnar á endurtekinni kreppu (e. double dip recession). Til að koma í veg fyrir það sé nauðsynlegt að skýr stefna um hagvöxt fylgi tillögum um niðurskurð.

Leggjum áherslu á málefnaleg skoðanaskipti
Í ræðu sinni á skattafundinum hvatti ráðherra atvinnulífið til að kynna sér málflutning Breska viðskiptaráðsins, sem reyndist góð ábending þó svo augljóslega skorti talsvert á að ráðherra hafi gert honum sanngjörn skil. Ýmislegt má læra af fordæmi breskra stjórnvalda og afstöðu breska viðskiptaráðsins. Sérstaklega er athyglisverð sú mikla áhersla sem lögð er á að skýr vaxtarstefna fylgi áformum um niðurskurð í opinberri starfsemi, sem Breska viðskiptaráðið telur bæði nauðsynleg og hrósar stjórnvöldum fyrir. 

Í raun má segja að þessi málflutningur Breska viðskiptaráðsins eigi afar vel við á Íslandi. Um leið og það er nauðsynlegt að ganga ákveðið til verks í að sníða stærð hins opinbera að efnahagslegum raunveruleika á Íslandi, þá er ekki síður mikilvægt að stjórnvöld skapi aðstæður til vaxtar og verðmætasköpunar atvinnulífs sem er forsenda atvinnu og bættra lífskjara til framtíðar. Á þetta hefur skort og eftir slíkri stefnu og aðgerðum er sérstaklega kallað í skýrslu Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífs sem gefin var út fyrrnefndum skattafundi.

Á næstu vikum er afar brýnt að fram fari málefnaleg og sanngjörn umræða um opinber fjármál, skatta- og útgjaldastefnu, og áhrif þeirra á íslenskt efnahagslíf. Það er ekki óeðlilegt að skiptar skoðanir séu um slíka stefnumörkun, en frjálsleg heimildanotkun eins og hér um ræðir er slíkri umræðu ekki til framdráttar.

Nú þegar framvinda margra aðgerða til úrbóta á núverandi stöðu efnahagsmála hvílir að miklu leyti á samráði og samstöðu er við hæfi að lyfta umræðunni á hærra og málefnalegra plan.

Tengt efni:

Tengt efni

Marel hlaut viðurkenningu fyrir sjálfbærniskýrslu ársins

Viðurkenning fyrir sjálfbærniskýrslu ársins var veitt í hádeginu við hátíðlega ...
8. jún 2023

Reiðir pennar

Haukur Viðar Alfreðsson, doktorsnemi í skattahagfræði, segir Viðskiptaráð fara ...
15. sep 2022

Þetta er ekki búið fyrr en það er búið

Svanhildur Hólm gerir upp árið 2021 - sýninguna sem ekki hefði verið selt inn á.
29. des 2021