Niðurskurður opinberra útgjalda óumflýjanlegur

Nú í vikunni mælti fjármálaráðherra fyrir fjárlagfrumvarpi næsta árs, en skv. ráðherra er megináhersla lögð á niðurskurð opinberra útgjalda til að mæta fjárlagahallanum í bland við skattahækkanir. Viðskiptaráð hefur lengi mælt fyrir slíkri áherslu umfram viðamiklar breytingar á skattkerfinu. Stafar sú áhersla fyrst og fremst af ósjálfbærri útgjaldaaukningu hins opinbera síðustu árin sem og að umfangsmiklar skattkerfisbreytingar eru til þess fallnar að draga úr efnahagslegum bata hagkerfisins sem kemur aftur niður á störfum og almennum lífskjörum.

Nauðsynlegt að forgangsraða
Á tímum sem þessum er nauðsynlegt að forgangsraða og slíkt felur oftast nær í sér sársaukafullar aðgerðir. Vissulega væri óskandi að fjármunir hins opinbera væru ekki af skornum skammti og hægt væri að bjóða upp á eins víðtæka þjónustu og menn kærðu sig um, án samsvarandi skattahækkana. Það er því miður ekki raunin - bág staða ríkissjóðs gerir stjórnvöldum einfaldlega ekki kleift að verja útgjöldin frekar en gert hefur verið.

Aðrar leiðir færar
Fljótt á litið vekur forgangsröðun í niðurskurðaráformum stjórnvalda að einhverju leyti furðu og bera heilbrigðismálin þar einna hæst. Það hefur verið álit Viðskiptaráðs að umtalsvert svigrúm væri til niðurskurðar án þess að slíkt þyrfti að bitna verulega á velferðarkerfinu. Var um þetta fjallað í skýrslu ráðsins frá því í desember síðastliðnum Fjármál hins opinbera - aðrar leiðir færar. Í henni eru lagðar fram ýmsar tilögur um tekjuöflun og niðurskurð fyrir ríkissjóð sem miða fyrst og fremst að því að ná fram jafnvægi í rekstri ríkissjóðs sem fyrst og með sem hagkvæmustum hætti og ýta þar með undir efnahagsbata.

Skattabreytingar hafa vakið furðu
Aðgerðir stjórnvalda á tekjuhliðinni síðustu misserin hafa jafnframt vakið furðu Viðskiptaráðs, en þar virðist allt skattkerfið vera undir hverju sinni og lítið horft til áhrifa þeirra á umsvif í hagkerfinu og tekjuöflunarhæfni kerfisins. Ekki þarf að tíunda afstöðu Viðskiptaráðs til áforma ríkisstjórnarinnar um frekari skattahækkanir - það svigrúm hefur þegar verið fullnýtt og gott betur - en ráðið gaf nýlega út skýrslu um skattkerfið með SA þar sem finna má margvíslegar aðrar og betri tillögur á þessu sviði.

Viðskiptaráð mun á næstunni fara gaumgæfulega yfir fjárlagafrumvarpið, rýna nánar í tekjuöflunar- og niðurskurðaráætlanir stjórnvalda og leggja fram sínar eigin tillögur.

Tengt efni

Keppni án verðlauna

Við fáum engin verðlaun fyrir að vera kaþólskari en páfinn
12. júl 2023

Hæpnar forsendur og ósjálfbær útgjaldavöxtur

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023
12. okt 2022

Fleiri njóta stuðnings einkageirans

Stuðningsstuðull atvinnulífsins hækkaði talsvert í faraldrinum
20. apr 2022