Þekkingarverðmæti?

Verðmætasköpun á grunni þekkingar. Markmiðið hljómar vel og hefur, með einum eða öðrum hætti, verið orðað ítrekað undanfarin misseri. Um það ríkir samfélagsleg sátt, enda felur það í sér möguleikann á lífskjarabótum umfram það sem auðlindir okkar, sjávarfang og orka, geta staðið undir. Að ná þessu markmiði er forsenda þess að lífskjör sem við höfum vanist verði varanleg.

Því er athyglisvert að skoða hvernig skipulega er unnið að þessu markmiði. Þar mætti t.d. líta til íslenska menntakerfisins. Eftirfarandi eru staðreyndir:

  • Íslenska menntakerfið er eitt hið dýrasta meðal ríflega 30 aðildarþjóða OECD.
  • Í framlagi til háskólastigs menntakerfisins er Ísland hins vegar meðal þeirra sem reka lestina hjá OECD. Miðað við hin Norðurlandaríkin er framlag á hvern nemanda helmingi lægra á Íslandi. Ísland er eina landið þar sem framlag á hvern háskólanema er svipað og á hvern grunnskólanema.
  • Niðurskurður til menntamála í yfirstandandi efnahagskreppu er meiri á háskólastiginu en öðrum skólastigum menntakerfisins.
  • Niðurskurður til háskólakerfisins dreifist ójafnt eftir fagsviðum; hlutfallslega mestur á svið tæknitengdra greina.

Það er jákvætt, og í takti við samfélagsmynd sem sátt er um, að vel er stutt við menntun eins og niðurstöður OECD gefa til kynna. Það skýtur þó skökku við, sérstaklega í ljósi vilja til verðmætasköpunar á grunni þekkingar, að það stig íslenska menntakerfisins sem líklegast er að stuðli að þekkingarverðmætum skuli vera jafn illa fjármagnað og raun er. Og að þar skuli, miðað við önnur stig menntakerfisins, eiga sér stað hlutfallslega mestur niðurskurður á opinberum fjárframlögum. Það er einnig umhugsunarefni að niðurskurðurinn skuli helst koma niður á tæknitengdum háskólagreinum. Nú, þegar skortur er á fólki til starfa í þekkingariðnaði og þar liggur einn verðmætasti vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs, ætti frekar að efla háskólakerfið og tæknimenntun sérstaklega.

Þetta sýnir að forgangsröðun í íslensku menntakerfi styður ekki við markmið um verðmætasköpun á grunni þekkingar. Um þrennt er að velja; laga þarf skipulag menntamála að markmiðinu, viðurkenna að menntakerfið eigi ekki að nýta sérstaklega til að ná því eða viðurkenna að markmiðið sé ekki raunverulegt. Um tvo síðustu kostina verður vonandi aldrei sátt.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 25. október 2010.

Tengt efni

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...

Lífstílsverðbólga stjórnvalda

Lækning lífstílsvanda stjórnvalda er tiltekt og forgangsröðun í útgjöldum ...
23. okt 2023

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023