Skapandi greinar á sterkum grunni

Í síðustu viku voru kynnt drög að skýrslu rannsóknar sem verið er að vinna um efnahagsleg áhrif skapandi greina hér á landi. Rannsóknin er fjármögnuð af fimm ráðuneytum ásamt Íslandsstofu og er hún unnin að frumkvæði samráðsvettvangs skapandi greina. Ljóst er að störf innan skapandi greina skipta miklu máli og innan þeirra á sér stað mikil nýsköpun á hverjum degi, þar sem m.a. arkitektar, listamenn og aðrir sem starfa á þessum vettvangi stunda sjálfstæðan atvinnurekstur sem auðgar líf Íslendinga.

Í rannsókninni er tekin saman velta skapandi greina útfrá skýrslum um virðisaukaskatt og upplýsingum um útgjöld ríkis og sveitarfélaga til greinarinnar. Á fundinum voru kynntar þær frumniðurstöður að skapandi greinar séu einn stærsti atvinnuvegur landsins, og að þær séu jafn stór þáttur í efnahagslífi okkar og stóriðja. Jafnframt kemur fram að samkvæmt rannsókninni er velta skapandi greina mun meiri en velta í landbúnaði og fiskveiðum samanlagt. Þegar nánar er í þetta rýnt kemur í ljós að í þessu tilfelli er t.d. einungis um að ræða búskap og veiðar en ekki vinnslu.

Réttur samanburður mikilvægur
Rétt er að vekja athygli á því að útflutningsverðmæti íslensks sjávarútvegs voru um 200 ma.kr. á síðasta ári og því erfitt að sjá útfrá hvaða samanburði er gengið í áðurnefndum niðurstöðum. Ætla má að umræddar greinar hafi verið brotnar niður í smærri einingar, til að komast að þessari niðurstöðu um stærð greina.

Mikilvægt er að átta sig á því að tekjur útflutningsgreina standa að miklu leiti undir þeim fjármunum sem fara í laun, skatta og fleira innan skapandi greina. Ekki getur talist jákvætt að upphefja eina grein á kostnað annarra, þar sem störf innan skapandi greina byggja á sterkum grunni annarra atvinnuvega.

Hér er verið að kynna rannsókn á því hvernig fjármunum í hagkerfinu er varið, en ekki hvernig þeim er aflað. Lífskjör byggja á verðmætasköpun og í þeim drögum sem kynnt voru var ekki komið inná þau verðmæti sem hver grein skapar heldur einungis veltu. Hvetja mætti samráðsvettvang skapandi greina til að leggja í úttekt á verðmætasköpun hinna skapandi greina til að kanna raunveruleg efnahagsleg áhrif þeirra. Vonandi er að komið verði inn á þetta í lokaskýrslu sem væntanleg er í mars á næsta ári.

Tengt efni

Meira fyrir minna  - öllum til hagsbóta

Þrátt fyrir að við stöndum frammi fyrir miklum áhrifum af COVID-19 á allt ...
22. okt 2020

Hikum ekki

Í núverandi ástandi er ómögulegt að vita fyrir víst hvaða ákvarðanir munu ...
20. mar 2020

Ávinningur af einföldun regluverks

Staða Íslands er að mörgu leyti slæm þegar horft er til umfangs regluverks og ...
3. des 2020