Hugsum heildstætt og undanskiljum ekki skattkerfið

Frá bankahruni hefur rekstarumhverfi fyrirtækja versnað umtalsvert. Má rekja þær breytingar bæði til þátta er varða efnahagsumhverfið almennt t.a.m. minni eftirspurn, gjaldeyrishafta, hárra vaxta og skuldavanda heimila og fyrirtækja sem og aðgerða stjórnvalda í skattamálum. Stjórnvöld hafa sagt undanfarin misseri að vilji sé til staðar til að bæta rekstarumhverfi fyrirtækja til að stuðla að almennri atvinnuuppbyggingu. Nú tveimur árum síðar má sjá merki um þennan vilja í nokkrum málum og hafa þó nokkur atriði breyst til betri vegar.

Jákvæð skref að bættu rekstarumhverfi...
Þar má einna helst nefna það samkomulag undirritað var í vikunni milli stjórnvalda og hagsmunaaðila atvinnulífs um úrlausn á skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja, Beina brautin svokallaða. Fagna ber að þetta samkomulag sé komið fram og að nú horfi til betri vegar í skuldaúrvinnslu lítilla og meðalstórra fyrirtækja enda um að ræða mikilvægan áfanga í endurreisn atvinnulífs. Annar mikilvægur þáttur sem gengið hefur verið frá nýlega eru aðgerðir til aðstoðar heimilum landsins. Það samkomulag dregur úr óvissum skuldastöðu heimila sem hefur bæði jákvæð áhrif á atvinnulífið og hagkerfið sem heild.

... en skattkerfið er undanskilið
Hinsvegar er enn margt sem stendur í vegi fyrir frekari atvinnuuppbyggingu. Nú hefur fjárlagafrumvarp næsta árs verið samþykkt frá Alþingi, en líkt og fyrir fjárlög þessa árs er gert ráð fyrir stórfelldum breytingum á skattkerfinu sér í lagi ef horft er til þeirra þátta sem áhrif hafa á vöxt fjárfestinga og viðgang atvinnulífsins. Því miður er það svo að lítið virðist hafa breyst í áherslum og vinnubrögðum stjórnvalda frá því fyrir ári þegar skattkerfinu var kollvarpað án samráðs við atvinnulífið í landinu. Raunin átti hins vegar ekki að vera þessi enda var stofnað til formlegs samráðs við fjölda aðila nú á vormánuðum. Þessir aðilar áttu þannig aðkomu að samráðsnefnd stjórnvalda, sem vann samhliða starfshópi fjármálaráðherra en sá hópur skilaði áfangaskýrslu 27. september síðastliðinn.

Einleikur stjórnvalda í skattamálum
Samráðsnefndinni var ætlað að vera vettvangur upplýsingamiðlunar og skoðanaskipta fyrir starfshóp ráðherra. Fulltrúar atvinnulífsins í nefndinni hafa frá stofnun hennar lagt sig fram við að leggja til hagkvæmar breytingar á skattkerfinu, með það að markmiði að auka fjárfesting hérlendis og umsvif atvinnulífsins. Viðskiptaráð og SA lögðu auk þessa fram ítarlega skýrslu, undir yfirskriftinni Skattkerfi atvinnulífsins, á haustmánuðum með fjölda ábendinga um nauðsynlegar breytingar á skattkerfinu með það að leiðarljósi að stuðla að bætti skattaumhverfi atvinnulífs. Það er hins vegar skemmst frá því að segja að frá því að sá starfshópur fjármálaráðherra tók til starfa og þar til nú hafa þessar áherslur atvinnulífsins verið að mestu hunsaðar.

Þau frumvörp ríkisstjórnarinnar sem nú eru að verða að lögum samhliða fjárlögum eru að nær fullu í samræmi við upphaflegar tillögur í áðurnefndri áfangaskýrslu skattahópsins. Það má því segja að tillögur hópsins hafi verið keyrðar í gegn þrátt fyrir rökstuddar ábendingar atvinnulífsins um skaðsemi þeirra og þrátt fyrir áhrif þegar innleiddra skattkerfisbreytinga á skattstofna. Þó finna megi jákvæðar breytingar í skattabandormi stjórnvalda, á borð við hagfelldari tekjufærslu eftirgjafar á skuldum, þá eru þær því miður of fáar og ganga ekki nægilega langt í veigamiklum málum.

Meira þarf til en vöxt einkaneyslu
Samkvæmt hagspá Hagstofunnar sem fjárlagafrumvarp næsta árs byggir á þá mun hagvöxtur næsta árs að megninu til byggja á aukinni einkaneyslu. Ljóst má hins vegar vera að meira þarf til en vöxt einkaneyslu til að halda uppi kröftugum hagvexti hér á landi á komandi árum. Skortur á vilja stjórnvalda til að huga að þeim skattalegu þáttum sem haftra atvinnuuppbyggingu er að draga úr þrótti og vilja fyrirtækja til að  fjárfesta og bæta við sig fólki. Þrátt fyrir jákvæð áhrif þess  sé að greiða úr skuldavanda fyrirtækja þá er það ekki nægilegt til að búa atvinnulífi landsins hagfellt rekstarumhverfi. Huga þarf að rekstarumhverfinu heildstætt og í því ljósi er ekki hægt að líta framhjá þeim skattalegu vanköntum sem finna má í núverandi skattaumhverfi líkt og gert hefur verið undanfarið.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Tengt efni

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023