Vel heppnaður skattadagur á þriðjudag

Á þriðjudag fór fram árlegur skattadagur Deloitte, Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptablaðs Morgunblaðsins. Uppselt var á fundinn og komust færri að en vildu, en Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs kom inn á þennan áhuga í erindi sínu og sagði: „það er ekki gott að mikill áhugi sé á skattamálum, það er til marks um hversu margir deila áhyggjum af skattkerfinu.“

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra setti fundinn, en í erindi hans kom m.a. fram að hann teldi mikinn árangur hafa náðst í því að halda opinberum stofnunum innan viðmiðunarmarka fjárlaga. Jafnframt væru hækkanir á sköttum hluti af óumflýjanlegum aðgerðum, en hann fagnaði þó allri umræðu um skatta og skattalagabreytingar. Önnur erindi á fundinum fluttu Vala Valtýsdóttir, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, Hólmfríður Kristjánsdóttir, lögfræðingur og Sigurður Páll Hauksson, löggiltur endurskoðandi, bæði á skatta- og lögfræðisviði Deloitte.

Yfir hundrað efnisbreytingar á skattalögum
Vala benti á í erindi sínu að síðustu tvö ár hefðu verið gerðar yfir hundrað efnisbreytingar á skattalögunum, sem sé umfangsmikil breyting frá fyrri lögum. Sigurður Páll dró saman að þegar teknar eru hækkanir á tekjuskatti einstaklinga og fyrirtækja, fjármagnstekjuskatti, tryggingagjaldi, auðlegðarskatti ásamt breytingum á skattalegri meðferð arðgreiðslna geta hækkanir á skattgreiðslum numið allt að 57% nú í ár miðað við árið 2008.

Fundarstjóri var Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Tengt efni:

Tengt efni

Tækifæri til breytinga

Ríkisstjórnin hélt, en það þýðir það ekki að allt þurfi að vera eins og á ...
30. sep 2021

Skattadagur Deloitte, Samtaka Atvinnulífsins, Viðskiptablaðs Morgunblaðsins og Viðskiptaráðs Íslands

Skattadagurinn 2008 fer fram miðvikudaginn 9. janúar kl. 8.15-10.00 á Grand ...
9. jan 2008