Rúmlega 50% fyrirtækja í samkeppni við hið opinbera

Þann 16. febrúar s.l. var haldið Viðskiptaþing Viðskiptaráðs Íslands undir yfirskriftinni Tökumst á við tækifærin - atvinnulífið til athafna. Líkt og titill þingsins ber með sér þá var umfjöllunarefni þingsins þau fjölmörgu tækifæri sem finna má í íslensku atvinnulífi. Bjartsýnis- og hvatningartónn í titli þingsins kann að skjóta skökku við nú þegar mörg umfangsmikil og aðkallandi vandamál virðast með áþreifanlegum hætti koma í veg fyrir framfarir og árangur. Eitt þessara vandamála eru mikil umsvif hins opinbera í atvinnulífinu vegna eignarhalds þess á fjölmörgum fjármálastofnunum. Mikilvægt er að tryggja að opinber umsvif hindri ekki framgang atvinnulífsins og um leið viðreisn hagkerfisins úr efnahagskreppunni.

Umsvif hins opinbera fara vaxandi
Á þeim tíma sem liðinn er frá bankahruni hafa hlutfallsleg umsvif hins opinbera stóraukist. Nú er svo komið að rúmlega 50% fyrirtækja telja sig vera í samkeppni við hið opinbera með beinum eða óbeinum hætti. 1 Það er áhyggjuefni að fyrir einungis ári síðan þá töldu um 40% forsvarsmanna sig vera í samkeppni við opinbera aðila og fara umsvif hins opinbera á samkeppnismarkaði því enn vaxandi. Hvort sú aukning merki að fleiri fyrirtæki séu nú í óbeinni eigu hins opinbera eða hvort fyrirtæki í opinberri eigu séu að sækja í sig veðrið er erfitt að segja til um. Mest finna aðilar fyrir opinberri samkeppni í smá- og heildsölu, þjónustugreinum og orku- og umhverfisstarfsemi. Nánari upplýsingar um könnunina má finna hér.

Miklu máli skiptir hver hlutfallsleg umsvif hins opinbera eru í hagkerfinu. Þetta hefur ekki eingöngu með þá staðreynd að gera að auknum ríkisumsvifum fylgja auknar skattaálögur með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á rekstrarumhverfið, heldur má almennt segja að  því meiri sem umsvif hins opinbera eru því minna svigrúm er til staðar fyrir starfsemi einkaaðila. Framleiðnivöxtur er meiri innan einkageirans heldur en hjá hinu opinbera og það er því grunnforsenda langtímahagsældar að kraftar einkaframtaksins séu nýttir til hins ýtrasta. Að sama skapi gildir að því minna sem hið opinbera er í samanburði við  einkageirann því sterkari er rekstrargrunnur þess.

Koma þarf fyrirtækjum í hendur framtíðareigenda
Hætt er við því að aukin umsvif opinberra aðila í samkeppni við einkaaðila dragi úr þrótti atvinnulífsins þar sem samkeppnisstaða einstakra verður ætíð bjöguð ef annar aðilinn nýtur styrkleika bakhjarls á við hið opinbera. Skerpa þarf skil á milli hins opinbera og einkaaðila með því að flýta sölu á fyrirtækjum í eigu fjármálastofnanna. Það getur hvorki talist æskilegt né eðlilegt að umtalsverður hluti fyrirtækja sé í beinni eða óbeinni ríkiseigu.

Aðkoma hins opinbera að bankakerfinu var óumflýjanleg eftir bankahrunið en ofangreind svör vekja þó upp spurningar um framtíðarskipulag íslensks bankakerfis. Það getur vart talist heillavænlegt til frambúðar að stór hluti, banka, sparisjóða sem og annarra lánastofnanna séu í eigu hins opinbera auk þess sem stór hluti íslenskra fyrirtækja er verulega háður fjármálastofnunum vegna nauðsynlegrar endurskipulagningar á skuldum eftir gengishrunið. Efla þarf umræðu um framtíðarskipulag á íslensku bankakerfi því núverandi fyrirkomulag mun ekki ganga til langframa.

Viðhorfskönnun Viðskiptaráðs:

________________________

1. Spurningin var tvískipt og var tæplega helmingur úrtaksins spurður hvort þeir teldu sig vera í samkeppni við hið opinbera þar sem svarmöguleikarnir voru einungis „já“ eða „nei“. Þá töldu 48% svarenda sig vera í samkeppni við opinbera aðila samanborið við við 40% svarenda við sömu spurningu fyrir ári. Rúmlega helmingur var  síðan spurður hvort þeir teldu sig í samkeppni við opinbera aðila en fjöldi svarmöguleika var aukinn sem endurspeglar betur núverandi stöðu. Þá töldu 55% sem töldu sig í samkeppni. Sjá nánar hér.

Tengt efni

Eignarhald íslenska ríkisins á skjön við önnur vestræn ríki 

„Að mati Viðskiptaráðs á hið opinbera ekki að stunda atvinnurekstur sem aðrir ...
12. mar 2024

Sóknarfæri á tímum sjálfvirknivæðingar

Aukinni sjálfvirknivæðingu fylgja áskoranir en um leið ýmis tækifæri
6. apr 2022

Skoða þarf fleiri hliðar á samkeppnisumhverfi íslenskra fjölmiðla

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið.
16. feb 2022