Endurskipulagning skulda forsenda efnahagsbata

Í morgun fór fram opinn upplýsingafundur um stöðuna á úrvinnslu skulda lítilla og meðalstórra fyrirtækja innan Beinu brautarinnar. Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, opnaði fundinn. Tók hann sérstaklega fram hversu mikilvægt samkomulag sem þetta er þegar kemur að því að greiða úr skuldum fyrirtækja, en endurskipulagning skulda er nauðsynlegur hlekkur í að koma hjólum atvinnulífsins af stað á ný. Nú bíða hátt í þúsund fyrirtæki þess að fá tilboð send og eru rétt rúmir tveir mánuðir í að öll fyrirtæki sem falla undir samkomulagið ættu samkvæmt upphaflegri áætlun að vera komin með tilboð um endurskipulagningu.

„Nú eru liðnir rúmir þrír mánuðir frá því að Beina brautin var lögð og því um að gera að líta á hvernig til hefur tekist. Í lok febrúar höfðu 363 fyrirtæki sem undir samkomulagið falla fengið send tilboð um endurskipulagningu sinna skulda, en það er nokkuð undir þeim markmiðum sem sett höfðu verið um að á þeim tímapunkti yrðu 506 fyrirtæki komin með tilboð í hendurnar. Þau fyrirtæki sem nú þegar hafa fengið afgreiðslu hafa fengið skuldir sínar lækkaðar um að meðaltali 50 milljón krónur hvert.“

Óvissuástand er engum til gagns
Þá tók til máls Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, en í erindi sínu velti hann upp þeirri spurningu hvers vegna endurskipulagning fyrirtækja væri mikilvæg fyrir íslenskt samfélag. „Ástæðan er margþætt. Fyrirtæki sem haldið er gangandi í óvissuástandi eru engum til gagns. Þau skapa ekki verðmæti og þau eru áþján á hagkerfinu. Þá eru áhrifin á heimilin neikvæð, en það frestar eða kemur í veg fyrir ákvarðanir um neyslu og fjárfestingu. Þá verða bankar sem eru með lánasöfn í vanskilum eins og íslensku bankarnir aldrei gjaldgengir alþjóðlega, þeir komast ekki á erlenda fjármagnsmarkaði og geta því ekki stutt með eðlilegum hætti við atvinnulíf.“ Þá benti Finnur einnig á að hagkerfi sem býr við ofangreind skilyrði geti hvorki skapað hagvöxt né búið fólki bætt lífskjör, hvað þá skapað jákvæðar væntingar um bjartari framtíð.

Finnur minnti ennfremur að óheilbrigðar aðstæður skapa óheilbrigð vinnubrögð, vantraust og tefja fyrir almennri uppbyggingu. „Ég held að það séu fleiri en færri af þeim bara ansi gott fólk sem vill vel, eins og Íslendingar eru almennt. Bankastarfsmenn eru ekki upp til hópa vanhæfir og atvinnurekendur eru ekki upp til hópa óheiðarlegir. Heldur þvert á móti. Það eru þessar gölluðu aðstæður sem skapa sérkennileg vinnubrögð og við þurfum að vera meðvituð um það til að geta tekist á við það vandamál.“

Ráðgjafar aðstoða fyrirtæki á Beinu brautinni
Fulltrúa þriggja fyrirtækja sem hafa nýtt sér úrræði Beinu brautarinnar tóku til máls og fjölluðu um eigin reynslu, en þeir voru: Piero Segatta framkvæmdastjóri Pústþjónustu BJB, Pétur Sigurðsson framkvæmdastjóri Sólrúnar á Árskógssandi í Eyjafirði og Helgi Sigurðsson framkvæmdastjóri Bílaþvottastöðvarinnar Löðurs. Þá fjallaði Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda um dóma sem fallið hafa um gengistryggð lán.

Í lok fundar tóku fulltrúar bankanna þátt í pallborðsumræðum, en þau voru: Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri endurskipulagningar eigna hjá Landsbankanum, Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaþjónustu hjá Arion banka og Una Steinsdóttir framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka.

Í upphafi og lok fundarins gafst fundargestum færi á að ráðfæra sig við ýmis fyrirtæki sem veita ráðgjöf í tengslum við samkomulagið, en yfirlit yfir þau má nálgast á upplýsingasíðu Viðskiptaráðs um samkomulagið. Eins og ítrekað var á fundinum að þá geta utanaðkomandi ráðgjafar reynst afskaplega mikilvægir í þessu ferli og eru fyrirtæki því hvött til að leita ráðgjafar hjá viðeigandi aðilum.

Að fundinum stóðu Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja, Félag atvinnurekenda, efnahags- og viðskiptaráðuneytið og fjármálaráðuneytið.

Glærur og ræður frá fundinum:

Tengt efni

Engan ærsladraug í Karphúsið

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, fer yfir stöðu mála í kjaraviðræðum aðila ...
29. jan 2024

Vilt þú efla samkeppnishæfni Íslands?

Nú er opið fyrir umsóknir um styrki úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands. ...
5. des 2023

Hver er þín verðbólga?

Viðskiptaráð hefur sett upp reiknivél sem gerir hverjum og einum kleift að ...
17. ágú 2022