Lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki hafa fengið grænt ljós

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur lokið afgreiðslu á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki nr. 152/2009 og gefið grænt ljós á það ríkisaðstoðarkerfi sem í þeim lögum felast. Í meðförum laganna fyrir Alþingi þegar þau voru afgreidd 2009 var ekki leitað álits ESA eins og skuldbindingar okkar skv. EES samningnum gera ráð fyrir í tilvikum sem þessum. Þegar lögin voru afgreidd á Alþingi var hins vegar leitað eftirá samþykkis vegna þeirra. Slíkt samþykki fékkst ekki og voru gerðar töluverðar athugasemdir við lögin af hálfu ESA.

Að teknu tilliti til athugasemda ESA voru lagðar til breytingar af hálfu fjármálaráðuneytisins sem samþykktar voru og sendar á ný til eftirlitsstofnunarinnar. Að þessu sinni fékkst samþykki fyrir því kerfi sem í tillögunum fólst, en markmið þeirra er að styðja við rannsóknir og tækniþróun með skattalegri ívilnun. Nú stendur nýsköpunarfyrirtækjum því til boða að sækja um skattafslátt sem getur numið allt að 20% af útlögðum kostnaði verkefnis og að hámarki 100 eða 150 milljónum króna. Sótt er um viðurkenningu samkvæmt lögunum til Rannís sem staðfestir hvort viðkomandi verkefni falli undir skilgreiningu laganna, sé verkefni og kostnaður samþykktur fæst endurgreiðsla á greiddum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækis.  

Viðskiptaráð fagnar því að komið sé kerfi til stuðnings við uppbyggingu nýsköpunar hér á landi, í samræmi við það sem gengur og gerist víðsvegar í Evrópu. Nýsköpun er mjög mikilvægur þáttur í endurreisn hagkerfisins og leggur ráðið áherslu á stuðning við það í starfi sínu. Hvað varðar skattalega hvata til handa einstaklingum og fyrirtækjum að fjárfesta í nýsköpun, sem voru felldir brott úr upphaflegu lögunum, þá hefur Viðskiptaráð unnið í góðu samstarfi við fjármálaráðuneytið og Samtök iðnaðarins að því að færa ákvæði í þá veru í þannig form að þau samrýmast EFTA reglum. Vonir standa til að tillaga þess efnis verði tilbúin fyrir sumarið, sem fer svo til umsagnar hjá ESA.

Tengt efni:

Tengt efni

Viðskiptaþing á Hilton Nordica á morgun

Skrifstofa Viðskiptaráðs verður lokuð á morgun vegna Viðskiptaþings.
7. feb 2024

Fleiri víti 

„Það þarf að fara varlega með vald, um það þurfa að vera skýrar reglur og ...
31. jan 2024

Óorð í ýmsum stærðum 

„Þegar íslensk stjórnvöld ákveða að innleiða EES-reglugerðir með íþyngjandi ...
4. okt 2023