Stuðningsstuðull atvinnulífsins – auknar byrðar á einkageirann

Þar sem vöxtur framleiðni er meiri innan einkageirans heldur en hjá hinu opinbera byggir hagsæld til lengri tíma á því að kraftar einkaframtaksins séu nýttir til hins ýtrasta. Einkageirinn er forsenda þess að hið opinbera geti veitt nauðsynlega þjónustu s.s. heilsugæslu og menntun, greitt atvinnuleysistryggingar til þeirra sem eru án vinnu og greitt lífeyri eða bætur til þeirra sem standa utan vinnumarkaðar.

Styrk hagkerfisins til að standa undir opinberri þjónustu má meta með því að skoða stuðningsstuðul atvinnulífsins. Í skoðun Viðskiptaráðs Velferðarkerfi byggir á atvinnurekstri er stuðningsstuðullinn reiknaður út. Árið 2010 stóð var hver einstaklingur á almennum vinnumarkaði að baki 1,54 einstaklingi (fyrir utan sjálfan sig) sem studdur var með opinberu fé eða millifærslum. Þarna er um að ræða þá sem starfa hjá hinu opinbera, auk þeirra sem njóta stuðnings  sameiginlegra sjóða, en það eru börn, lífeyrisþegar, öryrkjar og  atvinnulausir. Eftir því sem stuðningsstuðull atvinnulífsins er hærri því fleirum stendur hver starfsmaður í einkageiranum undir, sem felur almennt í sér aukna skattbyrði. Til samanburðar þá stóð hver starfsmaður undir 1,29 einstaklingi árið 2007. Því hafa byrðar einkageirans  aukist um tæp 20% frá árinu 2007.

Í þessu sambandi er mikilvægt að leggja áherslu  á að ýmis sú þjónusta sem veitt er af hálfu hins opinbera er verðmæt og mikilvæg fyrir samfélagið. Stuðningsstuðull atvinnulífsins og þeir útreikningar sem hann byggir á leggja hinsvegar ekki mat á slíkt mikilvægi þjónustu hins opinbera. Hér er aðeins bent á að eftir því sem stuðullinn er lægri því öflugra er hagkerfið og betur í stakk búið að tryggja hag og afkomu þeirra sem þurfa á aðstoð að halda.

Draga þarf úr umfangi hins opinbera
Hærra hlutfall hins opinbera gagnvart einkageiranum - hærri stuðningsstuðull atvinnulífsins - er því áhyggjuefni. Þetta á sérstaklega við þegar horft er til viðbragða stjórnvalda við efnahagshruninu á mörgum sviðum. Þar má helst nefna stóraukna skattheimtu á vörur, þjónustu, eignir og framtaksemi sem felur óhjákvæmilega í sér samdrátt eftirspurnar og óheppileg afskipti af lykilútflutningsatvinnugreinum sem eru til þess fallin að draga úr þeim mátt. Því til viðbótar hefur stærð hins opinbera ekki verið löguð að þeim efnahagslega raunveruleika sem nú blasir við.  Viðvarandi gjaldeyrishöft og almennt verri skilyrði til atvinnurekstrar gera einkageiranum ennfremur erfiðara um vik. Nýlegar fréttir um að launakostnaður hins opinbera fari nú verulega fram úr áætlunum gefa vísbendingar um að enn sé stefnt í ranga átt.

Umsvif hins opinbera eru enn á mörgum sviðum í anda þess þanda hagkerfis sem var hér í aðdraganda bankahrunsins, en í stað eðlilegrar aðlögunar á opinbera geiranum hefur sú leið verið farin að stórauka byrðar á atvinnulífið til að halda við rekstri hins opinbera. Þetta má m.a. merkja af því að yfir 100 skattabreytingar hafa verið gerðar á síðastliðnum þremur árum auk þess sem flækjustig skattkerfisins hefur verið stóraukið. Raunar hefur hringlandi stjórnvalda með skattkerfið verið slíkur að skattasérfræðingar hafa átt erfitt með að fylgjast með öllum breytingunum.

Skoðunina í heild sinni má finna hér.

Nánari upplýsingar veita Björn Þór Arnarson hagfræðingur og Finnur Oddsson framkvæmdastjóri í síma 510-7100.  Smellið hér fyrir fjölmiðlahorn Viðskiptaráðs.

Tengt efni

Viðskiptaráð leitar að framkvæmdastjóra

Viðskiptaráð Íslands er heildarsamtök fyrirtækja, félaga og einstaklinga í ...
22. jan 2024

Ítalska framsóknarleiðin

„Mælistika sem leggja þarf á skatta er hvort þeir séu góð hugmynd til langs ...
29. ágú 2023

Viðskiptaráð leitar að lögfræðingi

Starf lögfræðings Viðskiptaráðs er laust til umsóknar
4. mar 2023