Gjaldeyrishöft: betri upplýsingar nauðsynlegar

Sprotafyrirtækið Clara ehf. hefur birt svar Seðlabankans við beiðni þeirra um undanþágu frá gjaldeyrishöftum. Þremur vikum áður hafði CLARA sent inn beiðni til Seðlabankans um að fá að millifæra 1 bandaríkjadal, andvirði um 115 króna, til Bandaríkjanna. Tilgangur millifærslunnar var að stofna dótturfélag erlendis, en slíkt er óheimilt samkvæmt núverandi reglum um gjaldeyrishöft.

Seðlabankinn veitti félaginu undanþágu frá höftunum til að millifæra umrædda upphæð á þeim forsendum að undanþágan væri forsenda fyrir vaxtamöguleikum fyrirtækisins og sá vöxtur gæti haft í för með sér gjaldeyrisskapandi tekjur fyrir íslenskt þjóðarbú. Svarið í heild sinni má sjá hér.

Skortur á gagnsæi
Einn af stóru ókostunum við framkvæmd gjaldeyrishaftanna er að upplýsingar um úrskurði Seðlabankans við undanþágubeiðnum liggja ekki fyrir til upplýsingar öðrum þeim sem sækja um. Þar sem í slíkum úrskurðum felast mikilvægar upplýsingar um framkvæmd haftanna þá er verulega dregið úr gagnsæi og um leið aukast líkur á tvíverknaði og sóun bæði tíma og fjármagns. Þetta á við í starfsemi Seðlabankans en þó mestmegnis hjá fyrirtækjum, einkum þar sem þekking á undanþáguferli og regluverki haftanna er takmörkuð. Við blasir að mikil vinna liggur yfirleitt að baki þeim umsóknum um undanþágur sem berast Seðlabankanum. Þessa vinnu mætti spara með því að gera grein fyrir þeim fordæmum sem þegar eru til staðar, t.a.m. með birtingu svara Seðlabankans við undanþágubeiðnum. Af svipaðri ástæðu, skorti á gagnsæi og fyrirsjáanleika, er líklegt að margir láti hjá líða að sækja um undanþágur fyrir starfsemi eða verkefni sem líkleg eru til að stuðla að innflæði gjaldeyris. Að lokum opnar skortur á upplýsingum og leynd um málsmeðferð undanþága fyrir að aðilum með sambærilegar beiðnir sé mismunað.

Fleiri svör gerð aðgengileg
Æskilegt væri að leita leiða til að bæta úr þessum vanda sem fyrst, með ríkar upplýsingagjöf, en fordæmi þess má finna hjá mörgum opinberum aðilum. Seðlabanki Íslands gæti t.a.m. birt úrskurði sína opinberlega, með þeim fyrirvara að viðkvæmar upplýsingar sem rekja mætti til einstakra aðila væru máð út. Slíkt myndi draga úr sóun og ýta undir að jafnræðis væri gætt í meðferð umsókna um undanþágur.

Sú ákvörðun Clöru ehf. að birta svar við sinni undanþágubeiðni er gott og þarft framtak sem skýrir betur reglur um gjaldeyrishöft og sparar öðrum vinnu og tilkostnað vegna undanþáguumsókna.  Viðskiptaráð hvetur aðra sem sótt hafa um undanþágur að birta einnig svör Seðlabankans við sínum beiðnum. Það er íslensku efnahagslífi til hagsbóta að draga sem mest úr óvissu vegna gjaldeyrishaftanna og að skýra núverandi reglur með því að birta sem flesta fordæmisgefandi úrskurði. Í þessum tilgangi mun Viðskiptaráð leitast við að gera þá úrskurði Seðlabankans sem gerðir hafa verið opinberir aðgengileg á vefsíðu sinni. Þeim sem áhuga hafa á að birta svör við undanþágubeiðnum frá gjaldeyrishöftum, en vilja þó halda nafnleynd, er bent á að hafa samband við við Björn Þór Arnarson eða Harald Inga Birgisson hjá Viðskiptaráði. Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið gjaldeyrishoft@vi.is.

Tengt efni

Ákvörðun sem kostað hefur íslenskt atvinnulíf 9,8 milljarða

Að innleiða regluverk, sem sniðið er að milljóna manna þjóðum, með meira ...
2. okt 2023

Nágrannalöndin nýta oftar en ekki undanþágur sem Ísland nýtir ekki

Umsögn SA og Viðskiptaráðs um breytingu á lögum um endurskoðendur og endurskoðun ...
29. mar 2023