Kauphöllin hentugur kostur fyrir Landsvirkjun

Í gærmorgun fór fram fyrsti fundur í fundaröð Deloitte, Kauphallarinnar og Viðskiptaráðs Íslands um mikilvægi virks verðbréfamarkaðar á Íslandi. Á fundinum var farið yfir tilgang virks verðbréfamarkaðar og rætt m.a. um þau fyrirtæki sem skráð verða á hlutabréfamarkað á næstu misserum. Það var Knútur Þórhallsson, stjórnarformaður Deloitte, sem opnaði fundinn og minnti hann á mikilvægi virks verðbréfamarkað sem fjárfestingakost fyrir fyrirtæki jafnt og heimilin.

Fundarefnið að þessu sinni snérist að mestu um hlutabréfamarkaðinn, en á fundinum fluttu erindi þau Magnús Harðarson aðstoðarforstjóri NASDAQ OMX, Auður Finnbogadóttir framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga, Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, Árni Jón Árnason (sjá mynd að neðan) yfirmaður fjármálamarkaða hjá Deloitte og Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arion banka. Fundarstjóri var Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.



Magnús fjallaði um í erindi sínu hvaða fyrirtæki ættu erindi á markað. Einfalda svarið við því væru metnaðarfull fyrirtæki sem eru reiðubúin að taka á sig skráningaskilyrði, eru með innra skipulag og stjórnarhætti í lagi og endurspegla efnahagslífið. Taldi Magnús markaðinn geta og hafa stutt slík fyrirtæki og að fjölmörg tækifæri væru til staðar, t.d. í fyrirtækjum í undirstöðuatvinnugreinum efnahagslífsins. Nefndi hann m.a. Landsvirkjun og þörfina þar að hleypa einkafjármagni að hluta í félagið til að gera því kleift að takast á við framtíðarverkefni sín. Einnig nefndi hann hugmyndir um Sjávarútvegskauphöll þar sem þátttaka almennings gæti orðið grundvöllur sáttar í greininni.

Finnbogi fór yfir fjárfestingastefnu Framtakssjóðsins, stjórnarhætti hans og eignasafn undir yfirskriftinni „Enduruppbygging hlutabréfamarkaðar á Íslandi“. Rekstrarfyrirkomulag sjóðsins er svipað svipað og hjá „Private Equity“ sjóðum, en eignarhaldið er ekki hugsað til lengri tíma. Nefndi hann að áhersla væri lögð á skráningu félaga í eigu sjóðsins innan fárra ára og taldi hann að um 90% af þeim félögum yrðu skráð fyrr en síðar. Til þess þyrfti markaðurinn að taka ákveðnum breytingum og nefndi Finnbogi m.a. aukið traust, jákvætt skattaumhverfi, rýmri yfirtökureglur og að fyrirtækin ættu að tileinka sér arðgreiðslustefnu sem fæli ávallt í sér útgreiðslu arðs.

Árni Jón ræddi hvernig tryggja megi skilvirkt skráningarferli fyrirtækja á markað. Eins og staðan er nú sé tiltrú fjárfesta ekki til staðar og því mikilvægt að byggja upp traust á markaði með því m.a. að vanda til skráningaferla og upplýsingagjafar. Hann kom inn á að við skráningu séu oft úrlausnarefni þar sem þurfi að fá óháðan þriðja aðila til að fjalla um matskennd atriði. Skilvirk og hnökralaus skráning væri því helst tryggð með aðkomu fagaðila. Þá benti hann á að eins og staðan sé nú væri mikilvægt að draga almenna fjárfesta að hlutabréfamarkaðinum en líka stofnanafjárfesta. Fleiri þátttakendur þýði meiri skoðanir á verðþróun og jafnframt mögulega meiri viðskipti.

Á næstu tveimur fundum verður fjallað um forsendur verðbréfamarkaðarins og þau tækifæri sem þar felast, fyrri fundurinn fer fram í apríl á næsta ári og sá síðari í október.

Glærur af fundinum má nálgast hér að neðan:

Umfjöllun af fundinum í fjölmiðlum:

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

Sjálfbærniskýrslur Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna og Play valdar skýrslur ársins

Viðurkenningar fyrir sjálfbærniskýrslur ársins voru veittar fyrr í dag við ...
7. jún 2022