Þurfum við erlenda fjárfestingu?

Nú um helgina hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar skipst opinberlega á skoðunum um mál sem tengjast erlendri fjárfestingu á Íslandi. Í þeim samskiptum virðist kristallast verulegur skoðanaágreiningur milli þeirra flokka sem að ríkisstjórninni standa, en þó er ekki annað hægt að lesa út úr samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en skýra stefnu um að stuðla að beinni erlendri fjárfestingu „til að ná góðum og jöfnum hagvexti“.

„Það er almennt viðurkennt að erlend fjárfesting er mikilvægur drifkraftur endurreisnar hagkerfisins og kemur í raun fram með skýrum hætti í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna. Þess vegna koma skeytasendingar milli ráðherra síðustu daga verulega á óvart, en þær endurspegla mjög ólíka afstöðu til þessa grundvallarmáls. Gagnvart erlendum fjárfestum hljóta skilaboðin að vera ruglingsleg, í besta falli, og ólíklegt að þau virki hvetjandi.“ segir Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Á morgun, þriðjudaginn 6. desember, standa Viðskiptaráð Íslands og Íslandsstofa fyrir morgunverðarfundi um áhrif beinnar erlendrar fjárfestingar á endurreisn íslensks hagkerfis og efnahagsþróun til framtíðar. Fundurinn verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík (Gullteig), hann hefst klukkan 8:15 og stendur til klukkan 10:00.

Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, flytur opnunarávarp en Aðalsteinn Leifsson, lektor við viðskiptadeild HR, mun kynna tillögur starfshóps um stefnu stjórnvalda varðandi beina erlenda fjárfestingu hér á landi. Meðal annarra ræðumanna er Carlos Bronzatto, framkvæmdastjóri World Association of Investment Promotion Agencies (WAIPA), en hann er ráðgefandi við stefnumótun ríkja á sviði erlendra fjárfestinga.

Tengt efni

Skilvirkni og hagkvæmni til lausnar á vanda heilbrigðiskerfisins

Það er mat Viðskiptaráðs að leggja skuli áherslu á að auka hagkvæmni og ...
3. sep 2021

Fyllt upp í fjárlagagatið

Ef ríkisfjármálin voru á ystu nöf við fjárlagafrumvarpið má velta því upp hvort ...
17. des 2020

Verslun og verðbólga

Svigrúm verslunarinnar til að halda aftur af verðhækkunum er almennt lítið sem ...
29. apr 2021