Í morgun fór fram árlegur skattadagur Deloitte, Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulífsins og viðskiptablaðs Morgunblaðsins. Oddný Harðardóttir, nýskipaður fjármálaráðherra, setti fundinn og sagði augljóst að skattamál virtust mörgum ofarlega í huga. Hún ræddi m.a. tíðar breytingar á skattkerfinu síðustu ár, sem skapað hafa óvissu, en vildi þó meina að ekki hafi verið margir góðir kostir í stöðunni fyrir stjórnvöld. Að hennar mati hafi stjórnvöld farið rétta leið með blandaðri nálgun skattahækkana og niðurskurðar.
Hún taldi að endurreisn íslensks þjóðarbúskapar væri vel á veg komin, nú liggur fyrir áætlun um þróun ríkisfjármála til 2015 og eru þar engar frekari breytingar á skattkerfinu í farvatninu. Þá hefur ráðherra óskað eftir stöðumati frá starfshópi um endurskoðun á skattkerfinu og lagði hún áherslu á að samstarf yrði haft við aðila vinnumarkaðarins og ýmsa aðra á sviði skattamála næstu misserin.
Betra hefði verið að breikka skattstofna
Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, gagnrýndi í erindi sínu álagningu auðlegðarskatts og velti fram þeirri spurningu hvort skatturinn væri ekki í raun eignarnám. Einnig minnti hann á það að skattstofnar hafa dregist saman þegar betra hefði verið að reyna að breikka þá. Þá talaði Vilhjálmur um að það að mæta á fundi hjá nefndum Alþingis virtist þjóna takmörkuðum tilgangi. Athugasemdir sem færðar hafa verið fram um breytingar á skattkerfinu hafi fengið afskaplega takmarkaðan hljómgrunn meðal alþingismanna.
Vala Valtýsdóttir, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, fór yfir breytingar á sköttum á Írlandi og Íslandi frá hruni. Í máli hennar kom fram að örar breytingar og ómarkviss stefna í skattamálum hefðu valdið skaða á Íslandi, en hún telur að stjórnvöld hér á landi hafi með því fælt í burtu fjármagn. Þessar öru breytingar hafa haft letjandi áhrif á fjárfestingar, ekki einungis erlendar heldur einnig innlendar. Í því samhengi talaði Vala um að stjórnvöld á Írlandi hafi nálgast skattamál þar í landi með öðru hætti. Þar hefur verið unnið að því með markvissum hætti að laða fólk, fyrirtæki og fjármagn til landsins með því að viðhalda lágum skatthlutföllum og innleiða skattalega hvata.
Nauðsynlegt að stækka kökuna
Skattlagning á ferðaþjónustu: kapp er best með forsjá“ var yfirskriftin á erindi Boga Nils Bogasonar, framkvæmdastjóra fjármála hjá Icelandair Group. Hann sagði frá því að Flugfélag Íslands hefði þurft að draga saman í rekstri vegna þess að álögur á fyrirtækið hafi aukist um 114% frá 2009 til 2012 en á sama tíma hafi fjöldi farþega dregist saman um 2 prósent. Hann varaði jafnframt við svokölluðum komuskatti sem áformað var að taka upp hér á landi árið 2009, en slíkum skatti var komið á í Hollandi árið 2008. Það hafi ekki gefist vel, komugjöldin hefðu leitt til samdráttar í umferð um Schiphol flugvöll. Óháð úttektarnefnd áætlaði að hollenska hagkerfið hafi tapað ríflega milljarði evra á skattinu og því var skatturinn afnuminn ári eftir upptöku hans.
Bogi sagði m.a. „Hér á landi er nauðsynlegt að stækka kökuna frekar en að kaffæra vaxtasprota um leið og þeir myndast“ og minnti á að rétta leiðin væri að auka umfang ferðaþjónustu frekar en að leggja á sértæka skatta á geirann. Sem dæmi um það nefndi hann að ein ný flugleið hjá Icelandair, líkt og til Denver eða Washington DC, velti svipuðu og góður frystitogari.
Að lokum fjallaði Símon Þór Jónsson, forstöðumaður á skatta- og lögfræðisviði Deloitte, um reglur um vaxtafrádrátt. Í erindi hans kom fram að í íslenskri skattalöggjöf væru heimildir RSK til að takmarka frádrátt vaxta rekstraraðila í skattskilum bæði óljósar og óskýrar. Þá fjallaði Símon jafnframt um nýlegar ákvarðanir RSK um að meina fyrirtækjum um skattafrádrátt vegna vaxtagjalda þegar um skuldsettar yfirtökur hafi verið að ræða, en talsvert hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum síðustu misseri. Sjá hér:
Fundarstjórn var í höndum Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, framkvæmdastjóra Pizzahut á Íslandi og Finnlandi.Glærur af fundinum má nálgast hér að neðan:
Umfjöllun fjölmiðla af fundinum: