Viðskiptaþing 2012: Virði nýrra flugleiða á við aflaverðmæti fimm togara

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, fjallaði á Viðskiptaþingi, sem nú stendur yfir, um umfang íslensks flugrekstrar og virði nýrrar flugleiða. Sagði hann m.a. ríflega 2 milljónir farþega fara  um Ísland í millilandaflugi, 35.000 tonn af farangri í frakt, 18.000 brottfarir vera í millilandaflugi, 2.800 störf vera hérlendis í flugrekstri sem væru með 70% hærri meðaltalsframleiðni en á íslenskum vinnumarkaði og að Icelandair og starfsfólk þess hefðu greitt ríflega 7 ma. kr. í tekju- og launaskatta á síðasta ári.

Í máli Birkis kom jafnframt fram að framlag flugleiðanna Seattle og Denver til íslensks hagkerfis væri ríflega 5,5 ma. kr. á ári. Samanstendur það m.a. af launakostnaði áhafna, leiðarflugs- og lendingargjöldum, verslun einstaklinga í fríhöfninni og meðaleyðslu ferðamanna frá þessum borgum að fjárhæð 350 þús. á hvern einstakling. Samtals eru farnar 529 ferðir fram og til baka frá þessum tveimur borgum. Jafnast þetta á við meðalaflaverðmæti fimm skuttogara, en þá eru ótalin umtalsverð margföldunaráhrif í hagkerfinu sem gætu numið 12 - 20 mö. kr.

Að lokum ítrekaði Birkir að sóknarfærin væru til staðar og að atvinnulífið þyrfti að nýta þau. Aukinn fjöldi ferðamanna frá Seattle er gott dæmi þar um en þeir hafa tuttugufaldast á síðustu 2 árum. Með tilkomu Denver og aukinni tíðni yfir hafið til Evrópu þá fjölgar ferðamönnum enn frekar. Birkir áætlar að ferðamönnum hjá Icelandair muni fjölga um 130 þús næstu tvö árin. Þetta þýðir fleiri störf og auknar gjaldeyristekjur. Þess vegna sagði Birkir mikilvægt að taka ekki áhættu og draga úr fjölda ferðamanna með sértækum sköttum á ferðaþjónustuna.

Tengt efni

Hraðari viðspyrna með erlendri fjárfestingu

Verulega hefur dregið úr erlendri fjárfestingu á síðustu árum og hefur ...
2. des 2020

Forgangsröðun í þágu verðmætasköpunar

Á þessum tímapunkti þurfa stjórnvöld að forgangsraða í ríkisfjármálum til ...
20. okt 2020

Minni samkeppni ekki lausn á vanda landbúnaðarins

Kjöt og ostar, bæði innlendir og innfluttir, eiga það sameiginlegt að vera vörur ...
10. des 2020