Viðskiptaþing 2012: Fatahönnun einskins virði ef ekki er hægt að reka fyrirtæki á Íslandi

Hugrún Dögg Árnadóttur, framkvæmdastjóri KronKron, fjallaði á Viðskiptaþingi, sem nú stendur yfir, um virði hönnunar og þau tækifæri sem Íslendingum stendur til boða á því sviði. Nefndi hún sínar verslanir sem dæmi um hraðan vöxt hönnunar síðustu ár, en skóverslunin Kron var opnuð árið 2000 og haustið 2008 var fyrsta skólínan sett á markað. Í millitíðinni opnaði Hugrún fataverslunina KronKron árið 2004 og fyrsta fatalínan var sett á markað 2011. Nú selja þau í yfir 80 verslanir í 35 löndum víðsvegar um heim.

Hugrún ræddi um umfang fatahönnunar og nefndi að atvinnugreinin veltir orðið um 4 mör. kr. árlega. Þrátt fyrir hraðan vöxt hönnunar hérlendis ver hið opinbera eingöngu 37 mkr. í styrki til greinarinnar af rúmlega 3 ma. kr. heildarframlögum til listgreina, þ. á m. bókmennta, kvikmyndagerðar og tónlistar. Hugrún fagnaði því þó að talsverð vitunarvakning hefur orðið hér á landi varðandi gildi hönnunar og nefndi t.d. að hönnun hefði eflaust ekki verið efni Viðskiptaþings fyrir einhverjum árum.

Þá ræddi Hugrún um íslenskt rekstrarumhverfi, sem gerir hönnunarfyrirtækjum afar erfitt fyrir. Hugrún nefndi þar t.d. að hönnunarfyrirtæki lendi í ýmsum vandræðum í tolli vegna sýnishorna. Mikill tími tekur að fá þau úr tollinum vegna óvissu um tollverð þeirra. Þá er útflutningur almennt erfiður því Ísland er ekki aðili að svokölluðu EORI kerfi og enginn kannast við EES - samninginn. Því kemst varan varla frá verksmiðjunni á Spáni og ef hún kemst þaðan þá er hún iðulega stoppuð í tollinum í innflutningslandinu. Hægt væri að flytja allt til Íslands og aftur út en það væri of kostnaðarsamt.

Vegna þessa sagði Hugrún að flest hönnunarfélög væru orðin skráð félög í Evrópu. Það væri vilji þeirra til að halda Kron sem íslensku félagi, en nú eftir 4 ára hark hér heima ákváðu þau nýlega að opna dreifingarfyrirtæki í Hollandi og engin af áðurnefndum vandamálum hafa komið upp síðan. Virði hönnunar væri því ekkert ef ekki væri hægt að stunda hönnun hérlendis og halda hönnunarfyrirtækjunum heima.

Tengt efni

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Viðskiptaráð bakhjarl rannsóknar í því hvernig loka megi kynjabilinu í atvinnulífinu

„Tilgangur rannsóknanna og framlag til vísindasamfélagsins er að koma auga á og ...
25. okt 2023

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni. Þau hafa aftur á móti mikil áhrif á ...
26. jún 2023