Viðskiptaþing 2012: Unnt að auka verðmæti sjávarafurða með bættu samstarfi

Á Viðskiptaþingi, sem nú stendur yfir, ræddi Þorsteinn Már Baldvinsson virði sjávarafurða og einblíndi þar á makríl. Fór hann m.a. yfir vinnslu makríls, veiðarnar og helstu markaði félagsins. Skiptar skoðanir hafa verið um fyrirkomulag makrílveiða síðustu misseri. Þannig hafa reglulega verið viðruð sjónarmið í þá átt að ríkið hafi átt að leigja kvótann, líkt og Færeyingar gerðu að hluta, í stað þess að úthluta honum undir núverandi kerfi. Fyrir vikið hefði ríkið orðið af milljarðatekjum.

Þorsteinn bar saman ávinning færeyska ríkissjóðsins og hins íslenska þar sem m.a. komi í ljós að sá íslenski hafi fengið um 20 kr. meira á hvert kíló eða um 3 mö. kr. meira m.v. 155 þús. tonn. Ástæðan fyrir þessu hafi einkum verið sú að útleigði færeyski makrílkvótinn var keyptur af stóru erlendu skipi. Fyrir vikið hafi engin verðmæti, umfram leigugjaldið, skilað sér inn í færeyska hagkerfið. Á meðan hafi íslenska útgerðin greitt hluta af tekjum sínum í formi veiðigjalds, skatta af launum, lífeyris- og opinber gjöld og loks skatta af hagnaði.

Þá ræddi Þorsteinn stuttlega mikilvægi uppbyggilegs samstarf milli atvinnulífs og stjórnvalda. Sagði hann Íslendinga ekki komast upp úr skipunum því það væri alltaf verið að rífast um veiðarnar. Í Noregi væri hins vegar markvisst samstarf milli atvinnulífs og stjórnvalda m.a. um markaðssetningu sjávarafurða. Þá hefðu norsk stjórnvöld sett sér markmið um að draga úr kostnaði atvinnulífsins um 200 ma. kr. til ársins 2015 m.a. með því að draga úr umfangi stjórnsýslu.

Í lok erindis síns vitnaði Þorsteinn í ræðu Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs á nýlegum fundi norsku Samtaka atvinnulífs (NHO). Ráðherrann sagði þar m.a. að árfundur samtakanna stæði fyrir það sem gott er í Noregi þ.e. góð samskipti stjórnvalda og atvinnulífs. Það væri eitt af því sem gerir Noreg gott land að búa í að þessir aðilar hafi meiri samskipti en gerist í öðrum löndum. Þorsteinn bar þetta saman við ummæli og stefnu íslenskra stjórnvalda, m.a. í fiskveiðimálum, og sagði mikið skorta þar á ef taka ætti norska starfsbræður þeirra sem fyrirmynd. „Í íslensku atvinnulífi er til mikið af flottu og duglegu fólki sem gæti búið til margvísleg verðmæti, ef samskipti stjórnvalda og atvinnulífs hér væri sambærileg og því sem gildir í Noregi.“ sagði Þorsteinn.

Tengt efni

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023

Viðskiptaráð hvetur löggjafann til að leita hófsamari leiða

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum
1. nóv 2022