Hvers virði er matur?

2011.05.12 vþ skýrsla forsíðaÞessi grein birtist í skýrslu Viðskiptaráðs Íslands til árlegs Viðskiptaþings. Skýrslan í ár ber heitið Hvers virði er atvinnulíf?, en pdf útgáfu hennar má nálgast hér.


Alþjóðastofnanir eins og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu Þjóðanna hafa gefið út að matvælaframleiðsla þurfi að aukast um 70% fyrir 2050. Í dag er fæðuframboði heims misskipt milli svæða. Sum svæði heims glíma við ofþyngd og sóun á matvælum en á  öðrum svæðum sveltur fólk. Hröð fólksfjölgun og flutningar úr sveit í borg leiðir til þess að æ fleiri kaupa tilbúin matvæli. Einnig má gera ráð fyrir að kjöt- og fiskneysla aukist til muna taki þróunarríki upp matarvenjur Vesturlanda. Hefðbundinn nútíma landbúnaður og veiðar á fiski munu ekki leysa matvælaþörf framtíðar. Landbúnaður er háður notkun á tilbúnum áburði, olíu og fosfati, sem hvort tveggja er unnið úr þverrandi náttúruauðlindum. Veiðar á villtum fiski munu að öllum líkindum standa í stað eða jafnvel dragast saman til lengri tíma litið.

Tækifæri Íslands...
Hvað er því hægt að gera í þessari stöðu til að auka matvælaframleiðslu um 70% næstu áratugi og hvað getur Ísland lagt af mörkum? Til að hægt verði að uppfylla markmið um aukið framboð á matvælum þarf að taka upp nýjar leiðir til að framleiða mat og þá skiptir miklu máli að nýta auðlindir jarðarinnar á endurnýjanlegan, sjálfbæran og hagkvæman hátt. Ísland hefur tækifæri til að auka verulega sinn hlut í matvælaframleiðslu heimsins. Til að það megi verða er nauðsynlegt að nýta auðlindir á sjálfbæran hátt, tæknilausnir sem ávallt eru í þróun og ekki síst þekkingu sem til er í þeim atvinnugreinum sem Ísland hefur byggt afkomu sína á fram til þessa.

...liggur í matvælaframleiðslu til útflutnings
Útflutningur frá Íslandi á árinu 2011 nam 566 mö.kr. og þar af skilaði sjávarútvegur um 230 mö.kr., landbúnaður 7,5 mö. (þar af eldisfiskur 2,8 mö.) og unnar matvörur 4 mö.kr. Matvæli skila 42% af verðmætum í útflutningi, en stærsti hluti útfluttra matvæla er fiskur úr hafi og fiskafurðir. Reikna má með að hægt sé að halda við þessum verðmætum næstu ár og áratugi en erfiðara að auka þau mikið, enda hefur vel tekist að nýta allt hráefni fisksins t.d. af þorski. Landbúnaður á Íslandi er fyrst og fremst fjölskyldurekstur sem sinnir innanlandsmarkaði, sem er álíka stór og þorp í Kína.

Það tækifæri sem Íslendingar hafa er að nýta þau gæði sem landið býður upp á til framleiðslu matvæla til útflutnings. Landið er stórt, ríkt af náttúrlegum og sjálfbærum auðlindum s.s. endurnýjanlegri orku, volgu/heitu vatni, köldu vatni og sjó. Matvæli eru 80-90% vatn og þar sem matvælaframleiðslusvæði víða í heiminum hafa orðið illa úti vegna umhverfis- og veðurfarsbreytinga t.d. þurrka, flóða og aukinnar mengunar í vatni, gefur það Íslandi aukið forskot til framleiðslu hágæða matvæla.

Langtímaáætlun um verðmætasköpun
Íslendingar eiga að setja sér háleit en raunhæf markmið. Vel er hægt að setja fram 25 ára áætlun um að útflutningur á framleiddum matvælum skili jafn miklu og sjávarútvegur til þjóðarbúsins. Setjum stefnuna á að framleiða a.m.k. jafn mikið af fiski og Danir, nýtum betur frákast frá eldisfiski, framleiðum t.d. ómega 3 fitusýrur, gelatín, leður, fæðubótarefni og virk efni fyrir lyfjaiðnað. Setjum stefnuna á að framleiða kjöt, t.d. alifugla og nautgripi. Setjum stefnuna á að framleiða grænmeti og ávexti og horfum til Skota sem eru stórtækir í berjaframleiðslu án þess að hafa heitt vatn eða endurnýjanlega orku. Setjum stefnuna á afleiddu tækifærin sem falla til við stóraukna matvælaframleiðslu t.d. með sölu á þekkingu, tækni, búnaði og öðrum hliðarafurðum.

Sameiginlegir hagsmunir
Markaðsmálin skipta miklu og mikilvægt að vinna þau samhliða aukningu á framleiðslu matvæla til útflutnings. Mikilvægt er að Íslendingar sjái sjálfir um markaðsmálin og vinni sameiginlega að því að allar afurðir frá Íslandi séu seldar sem hfágæða afurðir, framleiddar á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt. Allir þurfa að ganga í takt. Stjórnmálamenn, stjórnsýsla, fyrirtæki, hagsmunasamtök og almenningur þurfa að sameinast um það markmið að Íslendingar verði þátttakendur í því stóra verkefni að framleiða matvæli fyrir erlenda markaði. Þar eiga þröngir hagsmunir að víkja fyrir skilvirkni og hagsmunum heildar. Reynslan hefur sýnt að mikil orka, tími og kostnaður fer í samskipti við stjórnsýslu og hagsmunasamtök t.d. í skipulags- og leyfismálum. Umhverfismálin skipta þar miklu en framleiðsla á matvælum getur vel átt samleið með kröfum um sjálfbærni og  umhverfisvitund.

Stefanía Katrín Karlsdóttir, Íslensk matorka

Tengt efni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni. Þau hafa aftur á móti mikil áhrif á ...
26. jún 2023

Fimm skattahækkanir á móti hverri lækkun

Frá áramótum 2022 hafa verið gerðar 46 breytingar á skattkerfinu, þar af hafa ...
31. maí 2023

Hver er þín verðbólga?

Viðskiptaráð hefur sett upp reiknivél sem gerir hverjum og einum kleift að ...
17. ágú 2022