EORI kerfi ESB

Síðustu vikur og mánuði hefur Viðskiptaráð unnið að því að meta hvort og þá hversu mikil áhrif nýlegt EORI kerfi ESB hefur á íslensk fyrirtæki. Í hnotskurn felur kerfið í sér að fyrirtæki fá sérstöku númeri úthlutað af tollyfirvöldum í hverju ríki sem gildir innan ESB. Númerinu er ætlað að auðkenna viðkomandi fyrirtæki í vöruviðskiptum milli ríkja og auka þannig bæði öryggi og skilvirkni tollameðferðar.

Íslenskum fyrirtækjum ekki kleift að sækja um
Eins og staðan er í dag þá er Ísland ekki aðili að kerfinu og því er íslenskum fyrirtækjum ekki kleift að sækja um EORI númer. Ísland hefur hins vegar tök á að taka upp EORI kerfið með tvíhliða samkomulagi við ESB, líkt og Norðmenn hafa gert. Framan af var það þó skilningur ráðsins og annarra að þetta hefði ekki veruleg áhrif á atvinnulífið. Útflutnings- og tolladeildir innlendra flutningafyrirtækja á borð við Eimskip, Samskip, Icelandair Cargo, DHL og TVG-Zimsen höfðu kynnt sér þessar breytingar og hófu m.a. að safna EORI númerum fjölda mótttakenda vara innan ESB til að auðvelda tilkomu kerfisins.

Ýtt undir að verðmætasköpun íslenskra fyrirtækja flytjist út fyrir landsteinana
Á síðasta Viðskiptaþingi kom þó skýrt fram í máli Hugrúnar Árnadóttur, stofnanda KronKron, að það að Ísland væri ekki þátttakandi í kerfinu auki verulega á útflutningsflækjur íslenskra fyrirtækja með framleiðslu erlendis. Þetta hefði m.a. haft það í för með sér að KronKron stofnaði erlent dótturfélag til annast sölu vara til viðskiptavina innan ESB enda í nær öllum tilvikum gerð sú krafa að umrætt EORI númer fylgi vörunum.

Slík þróun er vitaskuld bagaleg enda með þessu ýtt undir að verðmætasköpun íslenskra fyrirtækja eigi sér í auknum mæli stað á erlendri grundu. Til að kortleggja þetta frekar hefur Viðskiptaráð haft samband við fleiri fyrirtæki í sambærilegum rekstri og fjölmörg þeirra taka undir ofangreint. Hafi fleiri félagar ráðsins og önnur fyrirtæki svipaða sögu að segja þá eru þeir hvattir til að hafa samband við Harald I. Birgisson, aðstoðarframkvæmdastjóra. Ábendingunum verður komið áleiðis til utanríkisráðuneytisins.

Frekari upplýsingar um innleiðingu kerfisins í aðildarríkjum ESB má nálgast hér:

Upplýsingar um kerfið má nálgast hér:

Þá eru jafnframt handhægar upplýsingar á heimasíðu breskra tollyfirvalda:

Tengt efni

Hvert fer álið og hvaðan koma ávextirnir?

Greining á viðskiptum okkar við helstu viðskiptalönd – augljósar vísbendingar um ...
8. des 2021

Raunveruleg þörf fyrir sóttvarnaaðgerðir er nauðsynleg forsenda útgjalda

Viðskiptaráð kallar eftir afléttingu takmarkana og að athafnafrelsi sé komið að ...
25. jan 2022

Mikilvægi fjölbreytni er augljóst

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum ...
9. feb 2022