95 ár liðin frá stofnun Viðskiptaráðs

Í dag, 17. september 2012, eru 95 ár liðin frá stofnun Viðskiptaráðs Íslands (þá Verslunarráð Íslands). Haldinn var fundur í stjórn ráðsins nú í hádeginu og var hann sá 1551. frá stofnun. Löng hefð er fyrir því að halda stjórnarfundi fyrsta mánudag hvers mánaðar að júlí og ágúst undanskildum og var því um aukafund að ræða. Á fundunum eru ýmis mál tengd atvinnulífinu rædd auk almennra stefnumála Viðskiptaráðs.

Saga ráðsins er samofin sögu verslunar og viðskipta hér á landi, en það var stofnað 17. september 1917 í KFUM húsinu við Amtmannsstíg. Eins og fram kom í frétt á forsíðu Morgunblaðsins þann 19. september sama ár var boðað til stofnfundarins til að koma á „fulltrúaráði fyrir verzlun, iðnað og siglingar“. Ráðið hefur því verið sameiginlegur vettvangur íslensks atvinnulífs í 95 ár. Alla þá tíð hefur tilgangur þess verið sá sami, að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum atvinnulífs, óháð atvinnugreinum eða stærð fyrirtækja, og að efla frjálsa verslun og framtak.

30 ár frá flutningi í Hús verslunarinnar
Margt hefur breyst í starfsemi ráðsins í gegnum áratugina, en fyrir rúmum 30 árum, þann 12. júlí 1982, flutti Viðskiptaráð starfsemi sína frá Laufásvegi yfir í Hús verslunarinnar og var fyrst eigenda til að flytja inn í húsið. Aðstaða á nýrri skrifstofu ráðsins gjörbreyttist við flutninginn, þó fyrra húsnæði hafi verið yfirgefið með nokkrum söknuði vegna fegurðar og sögulegra tengsla. Í september árið 2005 var ennfremur ákveðið að breyta nafni Verslunarráðs Íslands í Viðskiptaráð Íslands. Undangenginn áratug hafði orðið mikil breyting á íslensku viðskiptaumhverfi, en aukin fjölbreytni fyrirtækja innan ráðsins einkenndi umfram annað þá breytingu.
 
Stjórn og starfsfólk Viðskiptaráðs færir aðildarfélögum þess sérstakar þakkir fyrir samfylgdina og ómetanlegan stuðning síðastliðin 95 ár. Á aðalfundi ráðsins í febrúar á þessu ári kom út ársskýrsla fyrir árin 2010-2011, en skýrslan var í sérstökum afmælisbúningi og er hún aðgengileg hér að neðan.

Tengt efni:

Tengt efni

Marel hlaut viðurkenningu fyrir sjálfbærniskýrslu ársins

Viðurkenning fyrir sjálfbærniskýrslu ársins var veitt í hádeginu við hátíðlega ...
8. jún 2023

Morgunverðarfundur FRÍS: Er evran lausnin?

Í tilefni endurreisnar Fransk-íslenska viðskiptaráðsins, hefur einn af höfundum ...
21. sep 2012

NÍV: Aðalfundur

Aðalfundur Norsk-íslenska viðskiptaráðsins verður haldinn í Ósló þriðjudaginn ...
26. apr 2016