Leið Íslands til aukins hagvaxtar kynnt

Á blaðamannafundi núna í hádeginu kynntu fulltrúar alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company viðamikla úttekt á hagvaxtarmöguleikum Íslands. Verkefnið var upphaflega kynnt í ræðu Hreggviðs Jónssonar, formanns Viðskiptaráðs á Viðskiptaþingi í febrúar síðastliðnum þar sem gerð var grein fyrir því að McKinsey myndi ráðast í þessa úttekt. Sú vinna hefur staðið frá vori með viðamikilli gagnaöflun, rýni og viðtölum við fjölmarga aðila m.a. úr atvinnulífi, stjórnsýslu og háskólum.

Úttekt McKinsey er í grófum dráttum þrískipt. Í fyrsta lagi er farið ítarlega yfir helstu áskoranir íslensks efnahagslífs nú. Í öðru lagi eru drifkraftar hagkerfisins skoðaðir og dregið fram hvar helstu þröskuldar í vegi hagvaxtar liggja. Að lokum eru helstu hlutar í hagvaxtaráætlun Íslands dregnir saman ásamt tillögum að því hvernig megi hátta innleiðingu þeirra. Úttektin hefur að geyma margvíslegar gagnlegar og þarfar ábendingar um hvað betur megi fara í ranni atvinnulífs, stjórnsýslu og í hagkerfinu í heild.

Skýrsluna má nálgast á vef McKinsey og fréttatilkynningu fyrirtækisins má finna hér. Helstu þættir úttektarinnar eru eftirfarandi:

  • Ísland hefur fallið niður lista efnuðustu landa heims, mælt í landsframleiðslu á mann, og helsta áskorunin nú er að endurheimta vaxtarmöguleika í krefjandi umhverfi.
  • Þröskuldar á þeirri vegferð eru fjölmargir en þar má einna helst nefna hættuna á að aftur stefni í viðvarandi viðskiptahalla samfara aukinni neyslu á meðan fjárfesting stendur í stað. Þetta myndi leiða til þess að landið festist í vítahring gjaldeyrishafta, hás fjármagnskostnaðar, lágs fjárfestingarstigs og lítils hagvaxtar.
  • Hárri landsframleiðslu á mann er að verulegu leyti haldið uppi af mikilli atvinnuþátttöku og löngum vinnutíma en þetta óvenju háa framlags vinnuafls skyggir á framleiðnivandamál sem er í flestum greinum atvinnulífsins.
  • Fyrsta skref til að rjúfa þennan vítahring er að samstaða náist meðal allra hagsmunaaðila um trúverðuga áætlun um hagvöxt sem byggir á grunnstyrkleikum hagkerfisins og að tekið sé á helstu áskorunum mismunandi greina atvinnulífsins.
  • Sjálfbær hagvaxtaráætlun verður að ná til allra atvinnuvega, en felur sérstaklega í sér aukna skilvirkni í innlenda þjónustugeiranum, aukið virði takmarkaðra auðlinda og eflingu alþjóðlegrar atvinnustarfsemi – sem er forsenda heilbrigðs viðskiptajöfnuðar.
  • Gerð er grein fyrir nauðsynlegum aðgerðum til að efla skilvirkni, efla útflutningsgreinar og auka virði útflutnings sem byggir á náttúruauðlindum, t.a.m. með opnun hagkerfisins, bættu aðgengi að áhættufjármagni, úrbótum í menntakerfi, o.fl. – svo að á Íslandi verði viðskiptaumhverfi samkeppnishæft á heimsvísu.
  • Mikilvægt er nú að hagsmunaaðilar komist að samkomulagi um vaxtarstefnu fyrir Ísland og aðgerðir sem stuðli að því að stefnan nái fram að ganga.

Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs, sagði af þessu tilefni:

„Úttekt McKinsey & Company gefur okkur einstaka innsýn í hve mikilvægt það er fyrir íslenskt hagkerfi að framtíðarsýn sé skýr og að áætlunargerð byggi á ítarlegri greiningu á raunverulegri stöðu atvinnulífs og hagkerfis. Nú liggur þessi greining fyrir að stórum hluta og gerir og kleift að taka ákvarðanir á grundvelli staðreynda. 
 
Greiningin sem nú liggur fyrir sýnir okkur að tækifærin til úrbóta eru mýmörg. Í þeim efnum er okkur tamt að horfa til stjórnvalda og stjórnsýslu. En þó vinna McKinsey dragi fram veikleika í regluverki og áherslum stjórnmála, þá er ljóst að tækifærin liggja ekki síður á vettvangi atvinnulífs, hjá íslenskum fyrirtækjum. Þar sem margt má betur fara og brýnt að forsvarsmenn í íslenskra fyrirtækja bregðist við og vinni að úrbótum þar sem við á.
 
Nú er það okkar að nýta þessa góðu vinnu McKinsey og við eigum mikið undir því að okkur takist vel til. Við verðum að stíga upp úr núverandi farvegi, treysta samvinnu og móta stefnu og aðgerðir sem efla verðmætasköpun og bæta lífskjör Íslendinga til komandi ára. Það er mín skoðun að hugmyndir þær sem nú liggja fyrir um samstarfsvettvang hagsmunaaðila þar sem áhersla verður lögð á eftirfylgni við vinnu McKinsey, með áherslu á mótun hagvaxtarstefnu og útfærslu aðgerða, verði að ná fram að ganga.“

Tengt efni

Stuðningsstuðullinn lækkar

Jákvæð þróun á vinnumarkaði - Stuðningsstuðullinn mældist 1,3 í fyrra og lækkaði ...
10. nóv 2023

Keppni án verðlauna

Við fáum engin verðlaun fyrir að vera kaþólskari en páfinn
12. júl 2023

Góðir stjórnar­hættir - hvernig og hvers vegna?

Tilnefningarnefndir er dæmi um viðfangsefni sem halda þarf áfram að móta til ...
8. mar 2023