Tilkynning til félaga í Viðskiptaráði

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, hefur óskað eftir því við formann og framkvæmdastjórn að láta af störfum. Gengið hefur verið frá tímabundinni ráðningu Haraldar I. Birgissonar, núverandi aðstoðarframkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, í starf framkvæmdastjóra og mun hann sinna daglegum rekstri ráðsins, verkefnastýringu og samskiptum við stjórn og félaga. Haraldur hefur starfað hjá VÍ frá árinu 2007, fyrst sem lögfræðingur Viðskiptaráðs og frá árinu 2010 sem aðstoðarframkvæmdastjóri. Hann er því  öllum hnútum kunnugur í starfi ráðsins og mikill akkur af því að fá hann í verkið. Haraldur er lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og aflaði sér lögmannsréttinda árið 2011. Haraldur mun gegna starfi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs a.m.k. fram yfir Viðskiptaþing í febrúar, en þá verður tekin ákvörðun um ráðningu til lengri tíma.

Þó að Finnur láti af störfum hjá Viðskiptaráði mun hann ekki hverfa af vettvangi atvinnulífs, en hann hefur verið ráðinn í starf aðstoðarforstjóra Nýherja hf. og mun hefja þar störf á næstu dögum. Engu að síður er ljóst að mikill missir verður af kröftum hans í starfi ráðsins, en Finnur á að baki ríflega fimm ára afar farsælt og óeigingjarnt starf sem framkvæmdastjóri á róstusömum tímum í íslensku efnahagslífi. Undir forystu Finns hefur verið unnið að töluverðum umbótum í starfi ráðsins. Hafa þær einkum byggt á aukinni aðkomu stjórnarmanna og félaga að stefnumótun og málefnastarfi, faglegri útgáfu, sérstakri áherslu á góða stjórnarhætti og þeirri sýn að hagsmunir heimila og fyrirtækja á Íslandi liggi saman og illa verði skilið á milli.

Eins og fyrr hefur Viðskiptaráð lagt sérstaka áherslu á mikilvægi menntunar fyrir uppbyggingu atvinnulífs og samfélags og er m.a. helsti bakhjarl Háskólans í Reykjavík í gegnum sjálfseignarstofnun Viðskiptaráðs um viðskiptamenntun. Finnur hefur komið að þessu starfi með virkum hætti og m.a. veitt háskólaráði HR formennsku á undanförnum árum. Hann mun áfram sinna því mikilvæga hlutverki fyrir hönd ráðsins.

Um leið og við þökkum Finni mikilsvert framlag í þágu Viðskiptaráðs og íslensks atvinnulífs, óskum við honum góðs gengis á nýjum vettvangi. Finnur mun láta af daglegri viðveru hjá Viðskiptaráði um miðjan mánuðinn en verður starfsfólki og stjórn ráðsins til ráðgjafar og stuðnings næstu vikur og mánuði, sérstaklega í þeim verkefnum sem tengjast Viðskiptaþingi í febrúar og undirbúningi að mögulegri stofnun nýrra atvinnulífssamtaka sem nú er til skoðunar.

Virðingarfyllst,
F.h. framkvæmdastjórnar Viðskiptaráðs Íslands,
Hreggviður Jónsson formaður
 
 

Finnur Oddsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands:

„Það var ekki auðveld ákvörðun að hætta hjá Viðskiptaráði. Frá því ég byrjaði hefur það hinsvegar legið fyrir að verkefnið væri til 3-5 ára og því hefur verið ljóst um um nokkra hríð að ég hverfi til annara verkefna um þetta leyti, enda er það hverjum manni hollt að takast á við nýjar áskoranir. Um leið og ég hlakka mikið til að ganga til liðs við Nýherja og þann öfluga hóp sem þar starf, þá er ég afar stoltur af því sem áorkast hefur í starfi Viðskiptaráðs á síðustu árum, starfi sem oft hefur verið unnið við ögrandi aðstæður.  Málefnastaða ráðsins er sterk og þar býr ráðið að frábæru starfsfólki og öflugum hópi stjórnarmanna og félaga sem deila þeirri skoðun að framtakssemi einstaklinga og öflugur markaðsbúskapar séu forsendur þess að á Íslandi verði tryggð góð lífskjör. Það hafa verið mér forréttindi að vinna með þessu góða fólki og ég veit að það mun áfram halda á lofti þeim leiðarljósunum sem Viðskiptaráð hefur starfað eftir í 95 ár. Þau hafa sjaldan verið mikilvægari en nú.“

Tengt efni

Vel heppnað Viðskiptaþing

Viðskiptaþing fór fram fimmtudaginn 8. febrúar síðastliðinn. Yfirskrift þingsins ...
14. feb 2024

Björn Brynjúlfur nýr framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Gengið hefur verið frá ráðningu Björns Brynjúlfs Björnssonar í starf ...
6. mar 2024

Fimm skattahækkanir á móti hverri lækkun

Frá áramótum 2022 hafa verið gerðar 46 breytingar á skattkerfinu, þar af hafa ...
31. maí 2023