Ný nálgun í skattamálum

Í morgun fór fram árlegur Skattadagur Deloitte, Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, setti fundinn og fór yfir aðgerðir ríkisstjórnarinnar síðustu vikur og mánuði í skattamálum. Grunnur þeirra aðgerða er stefnuyfirlýsing stjórnarflokkanna þar sem fjallað er um stöðugt, skynsamlegt og einfalt skattkerfi, innleiðingu jákvæðra hvata og lækkun skatta á tekjur, vörur og þjónustu til að auka fjárfestingu, efla framleiðslu og fjölga störfum.

Miklar breytingar þegar orðið

Ráðherra nefndi í erindi sínu helstu breytingar síðustu vikna á kerfinu og vísaði þar til lækkunar á tekjuskatti einstaklinga í miðþrepi og hækkun tekjuviðmiða í lægsta þrepi. Sá hann fyrir sér frekari skref í þessu veru og þá með fækkun skattþrepa í tvö. Þá ræddi ráðherra jafnframt lækkun tryggingagjalds, einföldun stimpilgjalda, breytingar á veiðigjöldum og auðlegðarskatti. Minnti ráðherra á að þær tekjur sem ríkið fellur frá að taka til sín hverfa ekki heldur verða þær eftir hjá einstaklingum og fyrirtækjum og skila sér síðar til ríkisins í formi aukinnar neyslu og fjárfestingar.

Í ávarpi ráðherra kom jafnframt fram að unnið væri að úttekt á skattkerfinu enda hefðu síðustu ár orðið mjög örar, sumpart umfangsmiklar og margar breytingar á kerfinu. Koma þurfi á veiðigjöldum sem sátt er um og tengja gjaldið við umframhagnað. Þá væri jafnframt stefnt að jöfnun og einföldun neysluskatta, upptöku skattaívilnana fyrir fjárfesta að fjármagna nýsköpunarfyrirtæki sem og endurskoðun á kerfi skattaívilnana fyrir rannsóknir og þróun.

Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, fjallaði um skattalega hvata fyrir hátæknifyrirtæki í alþjóðaviðskiptum. Í erindi sínu fjallaði Pétur um skýrslu McKinsey & Company um Ísland og samkeppni þjóða um fyrirtæki af þessum toga sem birtist m.a. í mismunandi ívilnanakerfum fyrir rannsóknir og þróun. Pétur sagði það ekkert náttúrulögmál að slík fyrirtæki staðsetji sig á Íslandi. Mikil samkeppni væri um þau og aðstæður hér heima fyrir margar sakir ekki ákjósanlegar. Vísaði hann þar til gjaldeyrishafta, gjaldmiðilsins og pólitísks óstöðugleika. Hagræn rök séu fyrir því að hið opinbera ýti undir nýsköpun og að Íslandi séu allir vegir færir ef vel sé að málum staðið.

Vala Valtýsdóttir, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, fjallaði um helstu skattabreytingar síðustu vikna og áhrif þeirra á fólk og fyrirtæki. Vala fór jafnframt yfir breytingar á skattlagningu fjármálafyrirtækja og nefndi að nú væru þrír mismunandi skattar lagðir á slík fyrirtæki umfram það sem gengur og gerist almennt.

Heimir Þorsteinsson, fjármálastjóri Actavis á Íslandi, fjallaði um skattkerfið út frá sjónarhóli fyrirtækis með starfsemi í 60 mismunandi löndum. Hann fjallaði m.a. um sérstaka skattadeild Actavis og helstu þætti hennar sem m.a. snúa að milliverðlagsreglum og eftirfylgni við skattalöggjöf í mismundandi lögsögum. Þá ræddi hann jafnframt um val á staðsetningu fyrirtækja út frá skattalegum sjónarmiðum og nefndi þar helstu þætti sem skipta máli, s.s.stöðugleiki og möguleiki á að fá bindandi álit, tvísköttunarsamningar, skattaafslættir vegna rannsóknar og þróunar, skattlagning arðgreiðslna og afdráttarskattar, fyrirkomulag á skattlagningu erlendra sérfræðinga og gjaldeyrismál.

Jörundur Hartmann Þórarinsson, á skatta- og lögfræðisviði Deloitte, fór að lokum yfir hvað ber að hafa í huga varðandi skattlagningu milli landa. Fór Jörundur þar einna helst yfir skattalega þætti sem einstaklingar þurfa að hafa í huga ætli þeir sér að starfa erlendis, t.a.m. innlend ákvæði tekjuskattslaga, ákvæði tvísköttunarsamninga, tilkynningar til innlendra skattyfirvalda og samspil við almannatryggingakerfið.

Tengt efni:

Tengt efni

Viðskiptaráð reiðubúið til samvinnu um faglega meðferð málsins

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að frumvarpi til laga um tekjuskatt (mál nr. 23)
14. jún 2022

Skattadagurinn 2022: Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra

Ávarp Bjarna Benediktssonar á Skattadegi Viðskiptaráðs, Deloitte og SA, 13. ...
13. jan 2022

Engar tekjur og endalaus útgjöld? Greining á loforðum flokkanna

SA og VÍ áætla að afkoma ríkissjóðs gæti versnað um allt að 250 milljarða. ...
22. sep 2021