Viðskiptaþing 2014: Pallborðsumræður um menntamál

Í aðdraganda Viðskiptaþings fékk Viðskiptaráð Capacent til þess að framkvæma viðhorfskönnun um menntamál. Niðurstöður úr könnuninni voru helsta umræðuefnið í pallborðsumræðum á þinginu, en yfirskrift þeirra var hvort menntakerfið styðji uppbyggingu alþjóðageirans.

Þátttakendur í pallborðsumræðum voru:

  • Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík
  • Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel
  • Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu
  • Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og fyrrverandi menntamálaráðherra
  • Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentor

Fyrst var rætt um styttingu náms á grunn- og framhaldsskólastigi, en 58% svarenda viðhorfskönnunarinnar töldu rétt að stytta nám á framhaldsskólastigi um eitt ár. Stuðningur við styttingu náms á grunnskólastigi var heldur minni eða 41%.

PallborðÁsta Magnúsdóttir sagði niðurstöðuna vart koma á óvart og endurómar þá umræðu sem hefur verið í gangi að undanförnu. Stefnt er að styttingu náms, a.m.k. á framhaldsskólastigi, og vinna í tengslum við hana í fullum gangi. Vilborg Einarsdóttir taldi ástæðu til þess að beina sjónum að því hvað við erum að kenna og hvað við viljum fá út úr kennslunni og setja saman hnitmiðaða námsskrá. Vilborg sagði Ísland eiga að stefna að því að vera þekkt fyrir besta menntakerfi í heimi. Katrín Jakobsdóttir sagði umræðuna um styttingu náms vera bundna við 3-4 ára ferli en raunin virðist ætla að verða önnur. Ari benti á að við ættum að vera óhrædd við að gera breytingar, en hefðir ráða miklu varðandi starfstíma grunnskóla og á rætur að rekja til þess tíma þar sem nemendur þurftu að vinna við heyskap á sumrin. Það að endurskoða námstíma sagði Ari fela í sér tækifæri til að virkja mannauðinn miklu betur.

Því næst var sjónum beint að því að 49% svarenda viðhorfskönnunarinnar sögðust hlynntir því að fjármagna háskóla að hluta með skólagjöldum til að bæta rekstrarstöðu þeirra, en einnig kom fram að 69% vilja að ríkið hækki framlög til háskóla og 66% vilja bæta rekstrarstöðu háskóla með sameiningu háskóla. Einnig var bent á það að 62% svarenda sögðust hlynntir fjölbreyttara rekstrarformi á leikskólastigi, 50% á grunnskólastigi, 54% á framhaldsskólastigi og 58% á háskólastigi.

Ari Kristinn sagði reynslu Háskólans í Reykjavík af skólagjöldum vera mjög góða og þau virka hvetjandi fyrir nemendur að klára nám sitt á réttum tíma. Skólagjöldin muni á endanum samsvara 2-3 mánaðarlaunum eftir útskrift og því fjárfesting sem er fljót að borga sig. Ari taldi það geta styrkt Háskóla Íslands verulega að rukka skólagjöld og fá að velja inn nemendur á grunni vilja og getu. Katrín sagði í kjölfarið að brottfall nemenda væri minna ef valið væri í skólana. Árni beindi sjónum að sóknarfærum í grunnskólunum, en þeir eru um 25% dýrari en á Norðurlöndunum laun kennara eru um 30-40% lægri og sagði eitthvað að í þessari jöfnu. Hann taldi breytinga þörf óháð rekstrarforminu. Vilborg benti á að horfa þyrfti á stóru myndina og t.a.m. þekktist brottfall úr skóla ekki í Sviss og að það sé kerfisvilla vegna brottfallsins hér heima.

Við mótun námsframboðs sagði Árni brýnt að hafa í huga að byrja á raungreinakennslu mjög snemma í grunnskólum og vekja áhuga ungra nemenda á raungreinum. Katrin benti á að auk þess að bæta raungreinakennslu og kynna hana fyrr fyrir nemendum þurfi einnig að horfa til tungumálakennslu í tengslum við eflingu alþjóðageirans.

Þátttakendur í pallborðsumræðum voru sammála um að hægt sé að gera betur til þess að menntakerfið styðji betur við uppbyggingu alþjóðageirans og atvinnulífið almennt.


Helstu niðurstöður viðhorfskönnunar Viðskiptaráðs eru aðgengilegar hér.

Upplýsingarit Viðskiptaráðs um alþjóðageirann má sækja hér. 

Myndband af pallborðsumræðum er aðgengilegt á Youtube-síðu Viðskiptaráðs.

Tengt efni

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023