Mikilvægi góðra stjórnarhátta rætt á ráðstefnu um fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum

Í gær fór fram ráðstefna undir yfirskriftinni Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Að ráðstefnunni stóðu Rannsóknarmiðstöð í stjórnarháttum við Háskóla Íslands ásamt Viðskiptaráði Íslands, NASDAQ OMX Kauphöll og Samtökum atvinnulífsins.

Stjórnarstörf og stjórnarhættir fyrirtækja hafa lengi verið ofarlega á baugi í starfsemi Viðskiptaráðs. Er þar skemmst að minnast útgáfu leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja, en í dag er um áratugur síðan fyrsta útgáfa þeirra leit dagsins ljós.

Til að byggja ofan á það jákvæða framlag sem útgáfa leiðbeininganna hefur falið í sér var verkefninu Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum hleypt af stokkunum fyrir um tveimur árum síðan. Markmið þess er að bæta eftirfylgni fyrirtækja við leiðbeiningar um góða stjórnarhætti með því að gera þeim kleift að undirgangast formlegt mat á starfsháttum stjórnar og stjórnenda.

Á fundinum var farið yfir þá þætti sem einkenna fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum og þau tækifæri sem fólgin eru í aukinni áherslu á góða stjórnarhætti í starfsemi íslenskra fyrirtækja.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, opnaði fundinn með ávarpi þar sem hún fjallaði m.a. um tengsl góðra stjórnarhátta og heilbrigðra gilda innan samfélagsins í heild. Ragnheiður nefndi að fjármálakrísan hafi orðið til þess að áherslan á góða stjórnarhætti jókst til muna, enda liður í því að byggja upp traust og trúverðugleika á ný. Hún sagði ekki nóg að setja stefnu í þessum efnum heldur þurfi stjórnarhættir að vera í stöðugri endurskoðun og að stjórnvöld þyrftu vissulega að sýna gott fordæmi í þessu samhengi.

2014.3.12 David BeattyNæstur tók til máls aðalræðumaður fundarins David Beatty, prófessor við Rotman School of Management í háskólanum í Toronto. David er einn af stofnendum og fyrrverandi framkvæmdastjóri The Canadian Coalition for Good Governance sem hefur verið leiðandi í eflingu góðrar stjórnarhátta í Kanada. Í erindi sínu fjallaði David um þróun og breytingar á stjórnarháttum í Kanada, sem og annars staðar í heiminum. David kom víða við í erindi sínu og tók fjölbreytt dæmi um aðstæður þar sem skortur á góðum stjórnarháttum hafa leitt til skakkafalla í rekstri fyrirtækja.

Að loknu erindi Davids lýstu Hrund Rudolfsdóttir, stjórnarformaður Stefnis, Úlfar Steindórsson, stjórnarmaður hjá Icelandair Group og Jón Már Halldórsson, stjórnarformaður Mannvits, sinni sýn á mikilvægi góðra stjórnarhátta. Í erindunum komu ræðumenn ennfremur inn á með hvaða hætti útttekt á stjórnarháttum hefði gagnast fyrirtækjum sínum.

2014.3.12 SaevarÍ kjölfar erindanna afhenti Sævar Freyr Þráinsson, stjórnarmaður í Viðskiptaráði Íslands, 11 fyrirtækjum viðurkenningu sem Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum eftir úttekt sérstakra úttektaraðila og Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti. Sjö þeirra hafa áður hlotið slíka viðurkenningu en þau eru: Icelandair group hf., Íslandspóstur hf., Íslandssjóðir hf., Landsbréf hf., Lánasjóður sveitafélaga ohf., Mannvit hf. og Stefnir hf. Fjögur fyrirtæki bættust í hópinn en þau eru: Advania hf., Greiðsluveitan ehf., Íslandsbanki hf. og Vátryggingarfélag Íslands hf. Umsögn um góða stjórnarhætti fyrirtækjanna má finna hér.

Að lokinni viðurkenningarathöfn fóru fram pallborðsumræður, en í pallborði sátu Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, Hrund Rudolfsdóttir, stjórnarmaður í Stefni, Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, Jón Már Halldórsson, stjórnarmaður í Mannviti, Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS og Úlfar Steindórsson, stjórnarmaður í Icelandair Group. Þátttakendur í pallborði komu víða við í umfjöllun sinni. Segja mætti að sameiginleg skilaboð meðlima pallborðsins hafi falist í mikilvægi þess að hugur fylgi máli hvað varðar góða stjórnarhætti. Mikilvægt sé að innleiðingu góðra stjórnarhátta sé fylgt eftir með markvissum hætti og að reglulega sé metið hvort efla megi störf stjórna enn frekar.

2014.3.12 Vidurkenningar

Páll Harðarson, forstjóri NASDAQ OMX Iceland, tók svo efni fundarins saman og fór í stuttu máli yfir þau framfaraskref sem átt hafa sér stað í innleiðingu góðra stjórnarhátta á undanförnum árum.

Fréttatilkynningu frá Rannsóknarmiðstöð í stjórnarháttum við Háskóla Íslands má lesa hér. Umfjöllun um fjögur ný fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum má sjá hér að neðan.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna hér.

Tengt efni:

Tengt efni

Smáþing 2013

Fimmtudaginn 10. október kl. 14-17 verður Smáþing haldið á hótel Hilton ...
10. okt 2013

Áhrif banka á rekstrarumhverfi fyrirtækja

Fjármálastofnanir ráða nú miklu um landslag reksturs á Íslandi, í gegnum ...
26. nóv 2009

Fundur um efnahagsmál í New York

Við viljum benda á áhugaverðan fund í New York sem Íslensk-ameríska ...
20. nóv 2008