Úttekt á stjórnarháttum: Vátryggingarfélag Íslands hf.

Vátryggingarfélag Íslands hf. (VÍS) hefur lokið formlegu úttektarferli á stjórnarháttum fyrirtækja sem sett var á laggirnar á fyrri hluta árs 2011 með samstarfssamningi Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins, NASDAQ OMX Iceland og Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands.

VÍS er stærsta tryggingafélag landsins og varð til árið 1989 við samruna Brunabótafélags Íslands og Samvinnutrygginga. Fyrirtækið stundar almenna tryggingastarfsemi og býður alhliða trygginalausnir fyrir einstaklinga, fjölskyldur, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir.

VÍS leggur áherslu á skilvirkni, sveigjanleika og gæði í þjónustu við viðskiptavini og starfrækir 40 þjónustuskrifstofur víðsvegar um land og starfa 210 manns hjá fyrirtækinu.

VÍS hf. lauk úttektarferlinu í janúar 2014, en það var Deloitte sem annaðist hlutverk úttektaraðila. Að mati Rannsóknarmiðstöðvarinnar stóðst VÍS úttektarferlið og telst því fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum. VÍS er heimilt að nota merki úttektarinnar í kynningarstarfi sínu næsta árið til marks um árangurinn.

Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq OMX á Íslandi óska forsvarsmönnum VÍS til hamingju með áfangann og vona að fleiri fyrirtæki fylgi í kjölfarið. Með því má með virkum hætti bæta stjórnarhætti fyrirtækja og um leið efla upplýsingagjöf til markaðsaðila og annarra áhugasamra um áherslur stjórnenda í atvinnulífinu.

Nánar um úttekt á stjórnarháttum fyrirtækja
Um er að ræða þrískipt úttektarferli. Stjórn viðkomandi fyrirtækis óskar eftir úttektinni og velur til þess formlega úttektaraðila sem safnar gögnum á borð við fundargerðir, starfsreglur, siðareglur, minnisblöð o.fl. sem og tekur viðtöl við einstaka stjórnarmenn og stjórnendur. Daglegir stjórnarhættir fyrirtækisins eru svo bornir saman við leiðbeiningar um góða stjórnarhætti. Að því loknu er skýrslu skilað til stjórnar fyrirtækisins.

Stjórninni stendur til boða í kjölfarið að senda skýrsluna til Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands til nánari skoðunar. Standist viðkomandi fyrirtæki úttektarferlið er því veitt viðurkenning sem fyrirtækinu er heimilt að nota í allt að ár frá veitingu hennar. Samantekt Rannsóknarmiðstöðvarinnar um fyrirtækið verður jafnframt gerð aðgengileg á vef hennar svo ástæður viðurkenningarinnar verði öllum ljósar. Sú samantekt felur einnig í sér tillögur til úrbóta.

Ljóst er að nær útilokað er að veita endanlega staðfestingu á að allir þættir í stjórnun og rekstri fyrirtækja standist lög, reglugerðir, alþjóðleg viðmið eða tilmæli opinberra aðila. Það er því ekki markmið þessarar úttektar heldur öðru fremur að reyna eftir fremsta megni að leggja mat á hvort stjórnir fyrirtækja fylgi sannanlega leiðbeiningum um góða stjórnarhætti. Með því er hagsmunaaðilum og öðrum áhugasömum veitt mikilvæg innsýn í hvernig stjórnir og stjórnendur fyrirtækja haga störfum sínum almennt.

Nánari upplýsingar veitir Dr. Eyþór Ívar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar í stjórnarháttum fyrirtækja, í síma 842-4333.

Umsögn Rannsóknarmiðstöðvarinnar um VÍS er aðgengileg hér.

Tengt efni

Úttekt á stjórnarháttum: Stefnir hf. til fyrirmyndar

Stefnir hf. er fyrsta fyrirtækið til að ljúka formlegu úttektarferli á ...
8. mar 2012

Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum: Mannvit og Stefnir

Mannvit og Stefnir luku nýverið við að endurnýja úttekt á stjórnarháttum sínum ...
2. júl 2013

Úttekt á stjórnarháttum: Íslandsbanki hf.

Íslandsbanki hf. hefur lokið formlegu úttektarferli á stjórnarháttum fyrirtækja ...
13. mar 2014