Hvernig er háttað mati á kostnaði atvinnulífsins vegna nýrra laga og reglna?, spyr Þór Sigfússon

Um leið og tekjuskattar fyrirtækja hafa verið lækkaðir eykst kostnaður atvinnulífsins vegna aukin eftirlits og margvíslegra íþyngjandi laga og reglna.   Enginn aðili virðist meta kostnað atvinnulífsins af nýjum lögum og reglum.  Nauðsynlegt er að birt verði reglulega yfirlit yfir kostnað atvinnulífsins vegna nýs laga- og regluverks.  

Fyrir all löngu fékk Þjóðhagsstofnun fjárveitingu til að meta áhrif lagafrumvarpa á atvinnulífið.  Ekkert varð þó úr því.    Til þessa hefur verið treyst á að í meðförum þingnefnda fái fyrirtækin eða samtök þeirra tilefni til að gera athugasemdir og leggja mat sitt á áhrif frumvarpa.   Þá er gerð sú krafa í reglugerð og lögum um eftirlitsstarfsemi hins opinbera að í frumvörpum um breytingar á eftirlitsstarfseminni fylgi kostnaðar- og ábatagreining á áhrifum eftirlitsins.   Þeim lögum hefur lítið verið fylgt.  Matið er því falið viðkomandi ráðuneyti eða eftirlitsstofnun en þessir aðilar sjá oft mikinn þjóðhaglegan ávinning af auknu eftirliti!  

Ríkið hefur gert samkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga um að lagt verði mat á frumvörp sem snerta sveitarfélögin sérstaklega og er þar um tilraunaverkefni að ræða.  Þá metur fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins kostnað við frumvörp ríkisstjórnarinnar. Kostnaðarmatið er einskorðað við kostnað ríkisins en ekki atvinnulífsins í heild eða heimilanna. 

Mat á kostnaði atvinnulífsins við nýtt laga- og regluverk er afar brýnt, ekki síst til þess að vera eins konar áminning til stjórnmálamanna og embættismanna um að fara sér hægt í laga- og reglusetningu. Þá hefur komið fram að kostnaður atvinnulífsins af t.d. margvíslegu eftirliti hefur aukist umtalsvert á síðustu árum og má áætla þann kostnað um 20-30 milljarða króna sé miðað við nágrannalönd okkar.  Það er því mikið í húfi að allir séu vel meðvitaðir um þann kostnað sem leggst á atvinnulífið af einstökum reglu- og lagasmíðum.

Þór Sigfússon

framkvæmdastjóri VÍ

Tengt efni

Hæpnar forsendur og ósjálfbær útgjaldavöxtur

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023
12. okt 2022

Hvar er kaup máttur?

Ísland er vissulega dýrt en tekjurnar eru líka með þeim hæstu svo að kaupmáttur ...
27. jan 2021

​Í grænu gervi: Grænir skattar og aðgerðir í loftslagsmálum

Grænir skattar hafa vaxið og breyst síðustu ár. Mikilvægt er að þeir séu ...
15. jan 2020