Jón Elvar Guðmundsson lögmaður skrifar um skattlagningu hlunninda

Skattlagning hlunninda

Eftir Jón Elvar Guðmundsson, hdl.

 

Nú er nýafstaðinn hin árlega útgáfa skattmats af stjórnvöldum þar sem hlunnindi eru metin til tekna svo taka megi af þeim skatt.  Óþarfi er að rekja hækkanir þess enda hafa helstu fjölmiðlar fjallað um það.

 

Hlunnindi eru þau verðmæti sem einstaklingar fá frá vinnuveitendum sínum, vegna vinnusambandsins í stað beinna launagreiðslna og skattskyld í sama hlutfalli og önnur laun.  Hlutur hlunninda í launum ræðst því af samningum milli starfsmanns og vinnuveitanda.  Þetta veldur vanda við skattlagningu þessara greiðslna þar sem ekki er um fasta krónutölu að ræða.  Því má segja að nauðsyn sé að meta þessar greiðslur til skatta.  Þetta er gert í árlegu skattmati, nú af fjármálaráðuneyti, áður af ríkisskattstjóra.

 

Það verður því varla deilt um nauðsyn þess að meta hlunnindi til verðs svo hægt sé að skattleggja þau samkvæmt lögum.  Hins vegar er aðferðin við matið umdeilanleg, þ.e. að stjórnvöld hafi það með hondum.  Alla jafna ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að skattyfirvöld meti verðmæti sem starfsmanni eru fengin með því að finna hvert gangverð þeirra sé, þar verður þó að fara varlega.  Um slíkt er ekki að ræða í því skattmati sem nú er stuðst við enda ljóst að um huglægt mat er að ræða sem leiðir til þess að það hækkar verulega milli ára.

 

Tvö ákvæði stjórnarskrárinnar setja skattlagningarvaldi nokkuð stífar skorður, efnislega er þar mælt fyrir um að skattamálum skuli skipað með lögum.  Jafnframt segir orðrétt í 77. gr. hennar: “Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann”.  Ekki er efni til þess hér að fara út í nákvæma skýringu og túlkun ákvæða stjórnarskrárinnar.  Hins vegar felast í ákvæðunum tvö grundvallaratriði.  Skattstofn og skatthlutfall skal ákveða með lögum settum á Alþingi og óheimilt er að framselja það vald til stjórnvalda.

 

Það er því augljóst að lagaákvæði sem heimilar stjórnvöldum að hækka skattstofna og þar með skattlagningu einstaklinga brýtur í bága við stjórnarskrá lýðveldisins.  Það eru engar undantekningar frá þessum ákvæðum stjórnarskrárinnar.  Því ætti það að vera lag nú á vorþingi að taka reglur skattmatsins upp í lög, sé það vilji löggjafans að halda þeim, og afnema gamla og úrelta aðferð sem brýtur gegn stjórnarskránni og setur hættulegt fordæmi um framsal skattlagningarvalds til stjórnvalda.

 

Höfundur er héraðsdómslögmaður hjá Taxis Lögmönnum sem sérhæfa sig í ráðgjöf og réttargæslu á sviði skattaréttar. 

 

Grein þessi er á ábyrgð höfundar og þarf ekki að endurspegla viðhorf VÍ

Tengt efni

Endurskoða þarf íþyngjandi ákvæði persónuverndarlaga

Umsögn Viðskiptaráðs, SA, SI, SFS, SVÞ, SAF, Samorku og SFF um frumvarp til laga ...
25. okt 2022

Bæta þarf úr annmörkum og leggja mat á áhrif

Umsögn Viðskiptaráðs, SA og SI um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum ...
24. mar 2022

Heimsókn frá Kanaríeyjum

Sendinefnd frá Kanaríeyjum er nú stödd á Íslandi og af því tilefni bauð ...
6. sep 2021