Aukið opinbert eftirlit íþyngir fyrirtækjum

Eftirlitsstarfsemi hins opinbera hefur orðið víðtækari á undanförnum árum og er eftirlit stundað á flestum ef ekki öllum sviðum atvinnulífsins. Skuldbindingar Íslands vegna þátttöku á EES knýja á um að settar séu reglur um tiltekið eftirlit og veita slíkar kröfur oft svigrúm til vals á milli leiða við eftirlit og gjalda. Mikilvægt er að eftirlitið sé skilvirkt og að kostnaðurinn við eftirlitið sé gegnsær. Með lögum um eftirlitsstarfsemi var stefnt að því að reikna ávallt út kostnað atvinnulífsins af eftirlitsstarfsemi. Kostnaðurinn af eftirliti er gríðarlegur. Erfitt er að áætla heildarkostnað atvinnulífsins vegna reglna um eftirlit, en Hagfræðistofnun Háskóla Íslands áætlar að beinn kostnaður fyrirtækja í landinu sé um 7,2 milljarðar króna á ári. Óbeinn kostnaður er þá ekki meðtalinn en óbeini kostnaðurinn er áætlaður 400 milljónir til fjórir milljarðar króna. Undir óbeinan kostnað fellur m.a. sú ójafna samkeppnisstaða fyrirtækja sem eftirlit getur skapað milli atvinnugreina. Þetta leiðir til aukins kostnaðar fyrir þjóðfélagið þar sem fyrirtæki neyðast hugsanlega til að taka dýrari framleiðslukosti umfram þá sem eru raunverulega ódýrari. Strangar kröfur um eftirlit geta dregið úr nýsköpun og er erfitt að meta kostnaðinn sem af því hlýst. Þjóðfélagið verður af nýjum og hagkvæmari framleiðsluaðferðum og vöruþróun ef nýsköpun er með þessum hætti gert erfitt fyrir. Beinn kostnaður hins opinbera vegna eftirlits á ári hverju er á bilinu einn og hálfur milljarður til fimm milljarðar króna.

Samkvæmt lögum um opinberar eftirlitsreglur nr. 27/1999 skal viðkomandi stjórnvald meta þörf fyrir eftirlit, gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því. Eftirliti verður því ekki komið á nema að undangengnu mati á þjóðhagslegu gildi þess. Álitamál er hvort eðlilegt sé að vernda tiltekna hagsmuni með lögbundnum aðgerðum. Ekki er ástæða til að ætla að eftirlit hverfi þótt lög og reglugerðir kveði ekki á um það. Fyrirtæki þurfa ávallt að vinna traust neytenda og gera það með traustvekjandi eftirliti. Gæðavottun fyrirtækja hefur aukist bæði hér á landi og erlendis. Neytendur eru kröfuharðar eftirlitsaðilar og hafa strangt eftirlit með þeim varningi sem þeir kaupa. Því má færa líkum að því að árangursríkara væri að færa eftirlitið í meira mæli til fyrirtækjanna sjálfra.

Nýlegt frumvarp Vinstri grænna sem felur í sér auknar valdheimildir handa Jafnréttisstofu til að krefja fyrirtæki allra upplýsinga um launakjör, íþyngir fyrirtækjum. Samkvæmt frumvarpinu á Jafnréttisstofa á geta fengið í hendurnar launaseðla fólks, upplýsingar um bifreiðahlunnindi, dagpeninga, styrki og aðrar greiðslur. Jafnframt felur frumvarpið í sér heimildir handa Jafnréttisstofu til að fara inná starfsstöðvar fyrirtækja til að sækja nauðsynleg gögn. Í dag hafa m.a. Samkeppnisstofnun, Fjármálaeftirlit og skattrannsóknarsjóri heimildir til að gera húsleit hjá fyrirtækjum. Hversu langt ætlum við að ganga hér á landi? Í 71. gr. stjórnarskrár kemur fram að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Friðhelgi einkalífs nær einnig til fyrirtækja. Því má ekki gera leit á manni eða í húsakynnum fyrirtækis nema nauðsyn beri til vegna réttinda annarra. Samkvæmt frumvarpinu á að beita þessu úrræði til að vinna gegn kynbundnum launamun og öðru misrétti kynjanna. Réttur einstaklinga og fyrirtækja verður að teljast meiri heldur en réttur Jafnréttisstofu til slíkrar gagnaöflunar. Starfsmenn semja gjarnan um að laun þeirra séu trúnaðarmál, enda slíkir samningar einkamál hvers og eins. Það er réttur hvers einstaklings að semja um laun sín á grundvelli eigin getu og starfsframa.

Kostnaðurinn af hertu eftirliti Jafnréttisstofu hefur ekki verið reiknaður. Í dag eru stöðugildi hjá Jafnréttisstofu 5 ½ og alveg ljóst að fjölga þyrfti starfsfólki og skipta starfseminni upp í deildir ef stofan ætti að fara með aukið eftirlit. Því er ljóst að kostnaðurinn yrði mjög mikill. Yfirvöld mega ekki fara offari í kostnaðarsömu opinberu eftirliti, því það kemur í hlut atvinnulífsins og landsmanna allra að greiða fyrir.

Sigþrúður Ármann.

Tengt efni

Hitam(ál) – Hvað er málið með álið?

Hugmyndir um takmörkun á stóriðju hér á landi annars vegar og samdrátt í losun á ...
3. apr 2023

Viðskiptaráð ítrekar ábendingar um atriði sem stríða gegn almannahagsmunum

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur (167. mál).
20. okt 2022

Orkulaus eða orkulausnir?

Traustir innviðir eru forsenda þess að samfélag og atvinnulíf á Íslandi búi við ...
16. feb 2023