Athugasemdir vegna Skoðunar um ríkisvæðingu

Á heimasíðu Verslunarráðs þann 13. júlí 2004 birtist grein sem nefnist Er ríkisvæðing að taka við af einkavæðingu? Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands gerir eftirfarandi athugasemdir við greinaskrifin:

„Á heimasíðu Verslunarráðs þann 13. júlí 2004 birtist grein sem nefnist ”Er ríkisvæðing að taka við af einkavæðingu?” Í greininni er fjallað um Landmælingar Íslands með þeim hætti að undirritaður sér sig knúinn að óska eftir leiðréttingu á eftirfarandi óútskýrðri fullyrðingu.

”Dæmi eru um að LMÍ hafi tekið yfir viðskiptahugmyndir einkafyrirtækja og gert að sínum. Verði framhald á aukinni starfsemi Landmælinga munu þau einkafyrirtæki sem hafa sérhæft sig á þessu sviði leggja upp laupana. Slíka þróun verður að varast.”

Til að skýra málið sem líklega er verið að ræða um í fyrrnefndri grein er rétt að eftirfarandi komi fram:

Á vormánuðum 2001 komu verkfræðistofan Hnit hf. og Landsvirkjun fram með þá hugmynd að láta skanna allt landið með radartækni úr flugvél og fá þannig nákvæmt hæðarlíkan af öllu Íslandi. Þetta frumkvæði var tekið alvarlega og komu ýmsir að því máli, meðal annars ráðuneytisstjórar nokkurra ráðuneyta. Áætlaður kostnaður hljóp á nokkur hundruð milljónum. Ekkert varð úr málinu á þessum tíma vegna mikils kostnaðar en vorið 2003 kynntu Almenna verkfræðistofan og verkfræðistofan Hnit hf. aftur sömu hugmyndina um radarskönnun af Íslandi.  Að þessu sinni var gert ráð fyrir að stofnanir gætu greitt fyrir gögnin á allt að 10 árum og lýstu nokkrar stofnanir yfir áhuga á að kaupa aðgang að hæðarlíkaninu, þar á meðal Landmælingar Íslands sem samkvæmt lögum skulu sjá um kortagerð af Íslandi.

Það var hinsvegar niðurstaða Ríkiskaupa og fjármálaráðuneytisins að verkefnið væri svo umfangsmikið að það bæri að bjóða það út á evrópska efnahagssvæðinu og að vinna þyrfti samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar um hagkvæm innkaup og lögum um opinber innkaup.  Umhverfisráðuneytið fól Landmælingum Íslands að vinna að verkefninu í samvinnu við Ríkiskaup og hafa verið úbúin nákvæm útboðsgögn auk þess sem 10 stofnanir hafa lýst yfir vilja til þátttöku í útboðinu. Staðan  málsin nú er sú að útboð hefur ekki enn farið fram meðal annars vegna þess að fjármálaráðuneytið hefur ekki veitt stofnunum formlegt leyfi til skuldbindinga í 10 ár.

Það skal að lokum ítrekað að Landmælingar Íslands vinna samkvæmt lögum um landmælingar og kortagerð frá 1997. Stofnunin var ein 5 stofnana sem tilnefndar voru sem fyrirmyndarstofnun árið 2004 og hefur hún undanfarin ár ávallt verið innan fjárheimilda. Stofnunin getur hinsvegar ekki borið ábyrgð á góðri eða slæmri stöðu einkafyrirtækja eins og ýjað er að á vef Verslunarráðs Íslands. Mörg verkefni sem Landmælingar Íslands sinna hafa undanfarin ár verið unnin með einkafyrirtækjum þar sem meðal annars hefur verið beitt útboðum eða úthýsingu.“
______

Þá vildi Vinnueftirlitið koma þeim upplýsingum á framfæri að stofnunin hefði ekki gert starfsánægjukönnun „fyrir“ Landspítala-háskólasjúkrahús. Stofnuninni sé með lögum gert að fylgjst með aðbúnaði á vinnustöðum og til að geta rækt þá skyldu sína sé könnun á afstöðu starfsmanna til vinnustaðarins nauðsynlegur hluti rannsókna Vinnueftirlitsins. Ekki sé um að ræða að stofnanir ríkisins geti keypt „starfsánægjukönnun“.
Verslunarráð telur rétt að komi fram að hugtakið starfsánægjukönnun í þessu tilliti hefur komið fram í fréttum af starfsemi Vinnueftirlitsins og því ekki að furða að málið hafi vakið athygli Verslunarráðs. Verslunarráð fagnar því að ekki sé um að ræða nýja þjónustudeild innan Vinnueftirlitsins. Verslunarráð telur þó enn fulla þörf á að huga að hlutverki stofnana eins og Vinnueftirlitsins og velta því fyrir sér hvort verið sé að krefjast til of mikils af þeim. Ef lögbundnar skyldur eru með þeim hætti að kallað sé á sífellt meira umfang er rétt að skoða hvort lagabreytinga sé ekki þörf.

Tengt efni

Kostnaðarsöm leið að göfugu markmiði

Ný greining frá Viðskiptaráði á kostnaði íslenskra fyrirtækja vegna íþyngjandi ...
5. júl 2023