Enn um ríkisvæðingu - viðbrögð á viðbrögð ofan

Skoðun VÍ á umfangi ríkisstarfsemi og vangaveltur ráðsins um mögulega ríkisvæðingu hafa vakið viðbrögð úr ýmsum áttum. Sýnist sitt hverjum og hafa þegar birtst hér á síðunni afstaða manna úr tveimur ríkisstofnunum sem minnst var á í Skoðuninni.
Aðrir hafa eitthvað að athuga við þau viðbrögð og þykir ráðinu rétt að birta hér álit félagsmanns á því sem þegar hefur komið fram.
Guðmundur Björnsson, verkfræðistofunni Hniti hf. ritar eftirfarandi:

Er ríkisvæðing að taka við af einkavæðingu?

 

Undir fyrirsögninni: Landmælingar Íslands fara að lögum sér forstjóri Landmælinga Íslands, Magnús Guðmundsson landfræðingur, sig knúinn til þess að óska eftir leiðréttingu á því, sem hann kallar óútskýrða fullyrðingu í efnistökum Verslunarráðs á heimasíðu sinni hinn 13. júlí síðastliðinn um það hvort ríkisvæðing sé að taka við af einkavæðingu. Þessi óútskýrða fullyrðing er að hans mati sú, sem Verslunarráð getur sérstaklega um, þ.e. að:

“Dæmi eru um að LMÍ hafi tekið yfir viðskiptahugmyndir einkafyrirtækja og gert að sínum...............”

 

Það þvælist ekki fyrir forstjóranum að finna út um hvaða viðskiptahugmynd var að ræða og hann viðhefur ekki minnstu tilraunir til þess að bera af sér þessar ávirðingar, heldur kýs hann að rekja mjög ónákvæmlega og frjálslega gang málsins.

 

Landmælingum Íslands voru kynnt áform okkar og samstarfsaðila okkar árin 2001 og 2003 um að radarskanna allt landið til þess að gera nákvæmt hæðarlíkan af landinu. LMÍ voru boðin gögnin og þeim veittar allar upplýsingar um nákvæmni gagna, tækni að baki þeim og öll verð. Þessar upplýsingar voru ekki fyrr komnar í hendur LMÍ en þeir snéru við okkur baki og þeir gera þessa hugmynd að sinni.

Svo sannarlega stálu LMÍ viðskiptahugmynd okkar og það svo rækilega að þeir jafnvel eltust við sömu kúnnana og við vorum búnir að fá til liðs við okkur árið 2003 með boðum um sömu kjör og við vorum búnir að veita þeim. Munurinn var einungis sá að nú áttu LMÍ að eiga grunninn og reka hann.

Staðreyndin er sú að LMÍ lögðust strax í upphafi þvert í götu fyrir framgangi þessa þjóðþrifamáls undir því yfirskyni að það væri hlutverk LMÍ að sjá um kortagerð á Íslandi samkvæmt lögum. Það kom ítrekað fram í viðskiptum við LMÍ í sambandi við þetta mál, að þeir kröfðust eignarréttar á kortgrunninum og vildu þannig koma í veg fyrir, að einkafyrirtæki gæti haft af honum tekjur með sölu til fleiri aðila og með því að bæta virðisaukandi gögnum ofan á hann. Þetta vilja þeir gera sjálfir. LMÍ virðast sjá einhverjum ofsjónum yfir starfsemi einkafyrirtækja í landmælingum og kortagerð.

 

Þá skýtur það skökku við, þegar LMÍ tala um að stofnunin fari að lögum ríkisstjórnarinnar um innkaup og mörg verkefni sem hún sinnir hafi verið unnin af einkafyrirtækjum þar sem m.a. hafi verið beitt útboðum eða úthýsingu. Undirrituðum er ekki kunnugt um að nein kjarnastarfsemi LMI hafi verið boðin út undanfarin ár. Því liggur beint við að fara fram á, að forstjórinn gefi nákvæmt yfirlit yfir þau verkefni og kostnað þeirra, sem unnin hafa verið af einkaaðilum fyrir LMÍ síðastliðin ár.

 

Þá verður ekki séð að farið sé að lögum um opinber innkaup við endurmælingu grunnstöðvanetsins 2004 en samkvæmt upplýsingum LMÍ er í þann veginn verið að ráðast í endurmælingu á grunnstöðvaneti landsins án útboðs, sem áætlað er að kosti hið minnsta kr. 60.000.000. Landmælingar Íslands eru hér með beðnar um skýringar á því hvers vegna þetta verk er ekki útboðsskylt og stofnunin beðin um að leggja fram tilheyrandi gögn frá fjármálaráðuneytinu þar sem undanþága er veitt fyrir því að ráðast í verkið án útboðs. Fáist ekki viðhlítandi skýringar á þessu verður málið kært til fjármálaráðherra.

 

Fyrir hönd verkfræðistofunnar Hnits hf.

Guðmundur Björnson

 

Tengt efni

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Ný skoðun Viðskiptaráðs: Fæstum þykir sinn sjóður of þungur

Viðskiptaráð leggur fram 28 tillögur um hvernig megi hagræða í sjóðum ríkisins
1. mar 2024