Nauðsynlegt að líta til frekari beinna fjárfestinga útlendinga

Á morgunverðarfundi Verslunarráðs um erlendar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi sagði Þorsteinn Pálsson sendiherra að það gæti verið kostur, á einhverjum tímapunkti, að breyta þeim óbeinu heimildum sem menn hafa í dag til fjárfestinga í beinar heimildir. Hann segist telja að allar stökkbreytingar á þeim reglum sem gilda um erlendar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi vera varasamar. Þorsteinn telur mikilvægt að íslenskur sjávarútvegur haldi áfram í  sókn. Hann segir að jafnræði ríki ekki á milli Íslands og Evrópusambandsins (ESB) þar sem sjávarútvegsfyrirtæki ESB njóti mikilla styrkja og því geti aðrar þjóðir ekki gert þá kröfu til þess að við breytum okkar leikreglum.

Finnbogi Jónsson starfandi stjórnarformaður Samherja, sagði á fundinum að það sé ekkert sem mæli á móti því að erlendir aðilar fjárfesti að einhverju leyti í skráðum íslenskum félögum. Hann telur að takmarkanir á erlenda fjárfestingu hafi neikvæð áhrif fyrir hlutabréfamarkaðinn og sjávarútvegsfyrirtækin. Hann telur áhugavert að fá erlent fjármagn inn og að sjávarútvegsfyrirtæki geti um leið séð aukið gildi fyrir að vera á markaði. Auknar heimildir gætu haft jákvæð áhrif á þjóðfélagið og hækkað verðmæti sjávarútvegsfyrirtækja. Finnbogi telur íslenska sjávarútveginn vera að missa af ákveðnum tækifærum og að næsta skref sé að auka heimildir fyrir skráð félög.

Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallar Íslands benti að lokum á hvernig fjölda skráðra sjávarútvegsfélaga hefði fækkað á undanförnum áum. Hann segir markaðsskráningu vera öflugt tæki til að efla fyrirtæki. Skráning auðveldi aðgang að fjármagni, samruna, yfirtökur og kaup á öðrum fyrirtækjum. Hann bendir á að útrásarfyrirtækin séu gott dæmi um hvernig hlutabréfamarkaðurinn hefur stuðlað að einstökum árangri þeirra. Þórður segir að takmarkaður aðgangur að fjármagni feli í sér lakari stöðu og færri tækifæri til sóknar. Hann telur núverandi tilhögun líklega óþarflega takmarkandi til að tryggja þau markmið sem að er stefnt. Þórður mælir með því að núgildandi lög verði endurskoðuð með það fyrir augun að rýmka aðgang að erlendu fjármagni. Sjá glærur Þórðar hér.

Tengt efni

Erlendar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi

Verslunarráð Íslands í samvinnu við Kauphöll Íslands stendur fyrir ...
20. okt 2004

Virkur verðbréfamarkaður

Fundarröð Deloitte, Kauphallarinnar og Viðskiptaráðs Íslands um mikilvægi virks ...
24. nóv 2011

Fagfjárfestar horfa til viðskiptahátta stjórnenda

Áhugi fjárfesta á nýskráningum mótast af gæðum upplýsinganna sem fyrir liggja, ...
25. nóv 2011