Ný tækifæri í einkarekinni tæknifrjóvgun

Nýlega tók einkarekin tæknifrjóvgunarstofa, ART Medica, til starfa. Með því skapast ný tækifæri fyrir skjólstæðinga þjónustunnar og starfsmenn hennar. Bætt þjónusta, aukið aðgengi að þjónustunni og betri nýting fjármuna eru lykilkostir einkarekinnar heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðishópur Verslunarráðs hefur bent á kosti einkareksturs í heilbrigðiskerfinu og bauð Guðmundi Arasyni, lækni í heimsókn. 

Biðlistum eytt
Hér á landi hefur verið langur biðlisti eftir meðferðum á tæknifrjóvgunardeild Landspítala háskólasjúkrahúss (LSH). Biðtími eftir tæknifrjóvgunarmeðferð hefur síðustu ár verið um eða undir einu ári. Með bættri starfsaðstöðu ART Medica og sveigjanlegra vinnuumhverfi eykst framleiðnin og unnt verður að fjölga meðferðum. Því eiga biðlistar loksins að heyra sögunni til, auk þess sem stytta á bilið á milli meðferða ef árangur næst ekki í fyrsta sinn. Í stað þess að fólk þurfi að bíða í hálft ár eða jafnvel lengur mun biðin styttast í tvo til fjóra mánuði. Verslunarráð hefur bent á að með einkarekstri eru fjármunir betur nýttir og sjúklingar fá aukið aðgengi að þjónustunni. 

Þjónusta við útlendinga
Eftir að biðlistum Íslendinga hefur verið eytt, verður hægt að bjóða útlendingum að gangast undir tæknifrjóvgunarmeðferðir hér á landi. Útlendingar hafa sýnt aðgerðum mikinn áhuga þar sem góður árangur hefur náðst á þessu sviði hérlends og kostnaður við meðferðir er lægri en víða annars staðar. Auk þess er boðið upp á meðferðir hér fyrir pör sem þurfa á gjafaeggjum að halda en slík þjónusta er ekki í boði alls staðar. Með einkarekstri opnast möguleikar á auknum tekjum í þjóðarbúið. Verslunarráð hefur bent á að aðstæður til að selja útlendingum  heilbrigðisþjónustu eru í alla staði ákjósanlegar. Á síðustu misserum hafa stjórnvöld víða í Evrópu opnað á kaup á heilbrigðisþjónustu í öðrum löndum á kostnað sjúkratrygginga í heimalandi viðkomandi.

Kostnaður sá sami
Fyrir Íslendinga er tæknifrjóvgun að hluta til niðurgreidd af sjúkratryggingum að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Fólk sem á t.d. tvö börn borgar fullt verð fyrir meðferðir. Stjórnvöld munu áfram ákveða hversu margar meðferðir greitt verður fyrir og að hvaða skilyrðum uppfylltum. Eftir að sá „kvóti” er búinn er ekkert því til fyrirstöðu að fólk geti borgað fyrir þjónustuna að fullu. Kostnaður við tæknifrjóvgunarmeðferðir mun ekki aukast hjá ART Medica. Með einkarekstri eiga stjórnvöld þannig auðveldara að hafa eftirlit með kostnaði og gæðum þjónustunnar.

Betri aðstaða
Hið nýja húsnæði ART Medica hefur verið hannað að þörfum starfseminnar og öll aðstaða til fyrirmyndar fyrir sjúklinga og starfsfólk. Stefna ART Medica er að víkka út starfsemina og fjölga starfsfólki. Allt þetta gerir það að verkum að þjónusta við skjólstæðinga mun aukast með einkarekinni tæknifrjóvgunarstofu.

Þó svo að kostir einkarekinnar tæknifrjóvgunardeildar séu margir, reyndist það ekki auðsótt mál að fá leyfi til einkarekstursins. Undanfarin tvö til þrjú ár ríkti mikil óvissa um framtíð starfseminnar innan LSH. Deildin hafði átt undir högg að sækja þegar gripið var til sparnaðaraðgerða á spítalanum. Um síðustu áramót voru gerðar breytingar á vöktum og vaktagreiðslum nokkurra líffræðinga og meinatækna, sem þeir litu á sem jafngildi uppsagna. Starfandi læknar á deildinni sögðu því upp í kjölfarið, enda deildin óstarfhæf án líffræðinga og meinatækna. Læknarnir Guðmundur Arason og Þórður Óskarsson, sem eru í forsvari fyrir ART Medica, eiga hrós skilið fyrir að hafa barist fyrir að fá leyfi til einkareksturs tæknifrjóvgunardeildar og óskar Verslunarráð þeim velfarnaðar í starfi.

Tengt efni

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023