Lagasetning leysir ekki allan vanda - frá morgunverðarfundi VÍ og lagadeildar HR

Margt athyglisvert kom fram á morgunverðarfundi Verslunarráðs og lagadeildar Háskólans í Reykjavík, sem fram fór í morgun. Rætt var um hvort setja ætti frekari lög á viðskiptalífið. Íslensk stjórnvöld hafa kynnt hugmyndir um að setja fleiri og íþyngjandi reglur í lög til að bæta stjórnarhætti fyrirtækja án sérstaks tillits til hvort um skráð félög, óskráð hlutafélög eða einkahlutafélög er að ræða. Árni Harðarson, yfirmaður skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, Mette Neville, prófessor við Viðskiptaháskólann í Árósum og Elfar Aðalsteinsson framkvæmdastjóri fluttu erindi.

Árni Harðarson sagði að reglur og fyrirmæli þyrftu að vera vel ígrunduð og taka mið mismunandi sjónarmiðum og þörfum. Óþarfa takmarkanir gætu heftað frumkvöðla, sem væru stærsta lífæðin í efnahagi hvers lands. Árni lagði áherslu á að ákveðin grunnatriði ættu að vera í lögum, og að þau væru nú þegar í lögum, en æskilegt væri að minni og meðalstórum fyrirtæi hefðu sjálf val um stjórnhætti sína. Benti Árni á að undirbúningur nefndar viðskiptaráðherra, sem skilaði skýrslu um íslenskt viðskiptaumhverfi í haust, hefði þurft að vera meiri og að nefndin hefði átt að hafa meira samráð við viðskiptalífið. Árni tók sem dæmi að í frumvarpsdrögum ráðherra væru settar stangari og ítarlegri reglur um hlutafélög með fleiri en fjóra hlutahafa, en slíkt viðmið gengi ekki.

Mette Neville prófessor við lagadeild Viðskiptaháskólans í Árósum sagði að umræðan um stjórnarhætti tæki almennt mið af skráðum félögum með dreift eignarhald en raunin væri sú á Íslandi, eins og í öðrum Evrópuríkjum, að stærsti hluti viðskiptalífisins samanstæði af litlum fyrirtækjum með samþjöppuðu eignarhaldi. Mette lagði áherslu á að rannsókn á stjórnarháttarvandamálum óskráðra fyrirtækja þyrfti að fara fram áður en hugað væri að lagasetningu. Í fjölskyldufyrirtækjum væru eigendur oftast fáir, eigendur væru oftast starfsmenn og að náin perónuleg tengsl væru á milli eiganda. Mette hefur gert viðamikla rannsókn á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem tekur til 1300 einkahlutafélaga í Danmörku. Hún sagði að ekki væri hægt að setja sömu reglur á skráð og óskráð fyrirtæki. Löggjafinn gæti aldrei leyst öll stjórnarháttarvandamál og því væri mikilvægt að hafa leiðbeiningar í stað laga.

Elfar Aðalsteinsson sagði mikilvægt að viðskiptalífið kæmi sem álitsgjafi að gerð reglugerða á fyrri stigum en nú er. Hann talaði um drög viðskiptaráðherra að lögum fyrir viðskiptalífið, þ.e. breytingar á félagalöggjöfinni, og spurði hver tilgangur með slíkri lagasetningu væri. Benti hann á að í drögunum fælust auknar álögur og skriffinnska fyrir smærri fyrirtæki, þar sem sömu kröfur væru gerðar til lítilla óskráðra fyrirtækja jafnt sem stórra skráðra. Elfar gagnrýndi eftirlitsiðnaðinn, sem hann sagði ört vaxandi grein á Íslandi. Benti hann t.d. á matvælafyrirtæki sem heyrði undir 7 ráðuneyti með viðeigandi eftirlitsaðilum og að fyrirtækið fengi reglulega háa reikninga frá þeim. Elfar tók sem dæmi persónulega reynslu af Aðfangaeftirlitinu og lýsti heimsókn eftirlitsins til fiskimjölsverksmiðju Eskju á Eskifirði. Stuttu eftir heimsóknina barst Eskju reikningur fyrir eftirlitið að fjárhæð rúmar 4 milljónir króna. Elfar benti á að gjaldtaka Aðfangaeftirlitsins bæri frekar merki skattheimtu en gjalds fyrir kostnaði vegna eftirlits því kostnaðurinn við eftirlitið er alltaf fast hlutfall útflutningsverðs! Af sögu Elfars að dæma er Aðfangaeftirlitið með öllu óþarft því svo virðist sem þær rannsóknir sem það framkæmir, t.d. díoxínmælingar, eru einnig framkvæmdar lögum samkvæmt af öðrum aðilum s.s. hjá RALA.

Sjá glærur Árna, Mette og Elfars.

Tengt efni

Eiríkur Elís nýr formaður Gerðardóms Viðskiptaráðs

Garðar Víðir Gunnarsson og Haraldur I. Birgisson hafa tekið sæti í stjórn ...
16. jan 2023

Stjórn Landspítala verði raunverulegur æðsti ákvörðunaraðili

Umsögn Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um breytingu á lögum um ...
7. apr 2022

Faglega og rekstrarlega sterk stjórn Landspítala gæti verið gæfuspor

Viðskiptaráð telur að skýra þurfi ábyrgðarsvið og heimildir stjórnar Landspítala ...
1. feb 2022