Samtök sjálfstæðra skóla

Samtök sjálfstæðra skóla voru stofnuð í morgun. Allir sjálfstæðir leik- og grunnskólar landsins, alls 35 skólar, munu gerast aðilar að samtökunum. Tilgangur samtakanna er að gæta hagsmuna sjálfstæðra skóla, efla samheldni þeirra, skapa vettvang til skoðanaskipta og vera í fyrirsvari fyrir sjálfstæða leik- og grunnskóla gagnvart opinberum aðilum. Aðilar að samtökunum geta verið þeir skólar sem reknir eru af einstaklingum, foreldrum, fyrirtækjum, félagasamtökum eða stöfnunum.

 Á stofnfundinum tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamála-ráðherra, til máls. Hún fagnaði stofnun samtakanna og taldi brýna nauðsyn á að samtökin gætu miðlað upplýsingum til hagsmunaaðila, fjölmiðla, ríkisvalds og sveitarfélaga. Sagði hún að tryggja þyrfti valfrelsi í skólamálum og að sjálfstæðir skólar væru ekki ógnun við menntakerfi landsins heldur tækifæri til að auka við menntunina í landinu.

Margrét Pála Ólafsdóttir skólastjóri Barnaskóla Hjallastefnunnar var kjörin formaður samtakanna. Sagði hún mikilvægt að fulltrúar allra sjálfstæðra leik- og grunnskóla geti deilt reynslu sinni og unnið sameiginlega að þeim hagsmunamálum sem snerta alla skólana óháð stefnu þeirra og starfsháttum að öðru leyti. Hún sagði að í dag ríkti ekki jafnræði meðal nemanda og foreldra barna í sjálfstæðum skólum og börnum og foreldrum barna í opinberum skólum.

Aðrir í stjórn samtakanna voru kjörin: Edda Huld Sigurðardóttir, skólastjóri Skóla Ísaks Jónssonar, varaformaður, Grímur Atlason, foreldrafélagi Barnaheimilisins Óss, Lovísa Hallgrímsdóttir, leikskólastjóri Regnbogans og Margrét Theódórsdóttir, skólastjóri Tjarnarskóla.

Í varastjórn voru kjörin: Karen Valdimarsdóttir, leikskólastjóri Gimli. Snorri Traustason, skólastóri Waldorfgrunnsskólans Sólstafa og Sólveig Einarsdóttir, leikskólastjóri Vinaminnis.

Verslunarráð Íslands er bakhjarl samtakanna. Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Verslunarráðs tók til máls og talaði um mikilvægi menntunar á leik- og grunnskólastigi. Sagði hann að miklu máli skipti að hlúð væri að sjálfstæðum leik- og grunnskólum. Að mati Verslunarráðs verða stjórnvöld og sveitarfélög að tryggja rekstrargrundvöll sjálfstæðra skóla og greiða jafnt með öllum nemendum.

Nálgast má samþykktir samtakanna hér.

Tengt efni

Endurskoða þarf íþyngjandi ákvæði persónuverndarlaga

Umsögn Viðskiptaráðs, SA, SI, SFS, SVÞ, SAF, Samorku og SFF um frumvarp til laga ...
25. okt 2022

Ekki skjóta sendiboðann

Efling segir framlag hins opinbera til nokkurra málaflokka benda til þess að ...
16. ágú 2022

Að laga kerfi

Óskað eftir alvöru lausnum og færri fáliðunardögum.
11. nóv 2021