Nafnabreyting kynnt - Viðskiptaráð Íslands

Nafnabreyting Verslunarráðs Íslands var kynnt í gær á fjölmennri samkomu félaga ráðsins á Nordica hóteli.

Verslunarráð Íslands var stofnað árið 1917 og hefur síðan þá verið vettvangur viðskiptalífsins, bæði sem málsvari þess gagnvart stjórnvöldum og sem hugmyndafræðileg uppspretta framfara í íslensku atvinnulífi. Síbreytilegt viðskiptaumhverfi hefur á þessum árum mótað áherslur í starfi ráðsins á hverjum tíma. Ráðið hefur þó alltaf verið vettvangur hvers kyns fyrirtækja, óháð starfsgreinum eða stærð þeirra. Í þeim víðtæku tengslum við íslenskt viðskiptalíf sem ráðið hefur þannig öðlast felst einmitt styrkur ráðsins. Nýir félagar ráðsins skipta tugum á síðustu misserum.  

Undanfarinn áratug hefur orðið meiri breyting á íslensku viðskiptaumhverfi en marga áratugi þar á undan. Fjölbreytni fyrirtækja einkennir umfram annað þá breytingu. Í því ljósi var stjórn Verslunarráðs sammála um að nafn ráðsins væri ekki eins lýsandi fyrir starfsemi þess og best væri á kosið. Í gær var því kynnt ákvörðun stjórnarinnar um að ráðið tæki upp nafnið Viðskiptaráð Íslands og um leið yrði nafnið Verslunarráð Íslands lagt niður. Kom fram meðal félaga ráðsins ánægja með þessa breytingu og er hún talin til þess fallin að styrkja enn frekar öflugt tengslanet ráðsins í hinu sívaxandi íslenska viðskiptalífi. Nafn ráðsins á ensku mun eftir sem áður vera Iceland Chamber of Commerce.

Á Nordica hóteli í gær kynnti Þór Sigfússon framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs jafnframt áherslur ráðsins fyrir komandi misseri. Taka þær einnig mið af breyttu viðskiptaumhverfi hér á landi. Auk fyrirhugaðrar útgáfu ráðsins og funda, m.a. um tvísköttun, Ísland sem alþjóðamiðstöð og 15% skatta, kynnti Þór fyrirhugaða ráðstefnu The Economist hér á landi, The First Roundtable with the Government of Iceland, en hún verður haldin í samstarfi við VÍ. The Economist stendur fyrir slíkum ráðstefnum reglulega í öllum helstu hagkerfum heims og einstaka sinnum í minni hagkerfum. Íslenskt efnahagslíf verður því í sviðsljósinu í erlendri umfjöllun um efnahagsmál. Þór minntist í því sambandi einnig á sívaxandi hlutverk Viðskiptaráðsins í alþjóðavæðingu íslensks viðskiptalífs. Hann benti á gríðarlega aukningu á áhuga erlendra fjölmiðla á íslensku viðskiptalífi og einstökum íslenskum fyrirtækjum. Viðskiptaráðið fer ekki varhluta af því enda hafa um 60 blaðamenn haft samband við ráðið á síðustu 3-4 mánuðum.

Í gær voru kynntir ýmsir starfshópar sem munu taka þátt í mótun stefnu Viðskiptaráðs næstu misserin. Þar á meðal er nefnd um íslensku krónuna sem mun fjalla um stöðu gjaldmiðilsins í framtíðinni, um kosti hans og galla.

Í framtíðarsýn Viðskiptaráðsins ber mikið á uppbyggingu í skólamálum. Kynntar voru hugmyndir um framhaldsskólaþorp í Kringlunni, í kringum Verzlunarskóla Íslands en Háskólinn í Reykjavík mun brátt flytja af svæðinu. Verzlunarskólinn, sem hefur verið rekinn af Sjálfseignarstofnun VÍ og undir verndarvæng ráðsins í áratugi, hefur áhuga á að stækka og auka námsval verulega. Viðskiptalífið mun ekki láta sitt eftir liggja og mun styðja slíka uppbyggingu eins og kostur er.

Tengt efni

Dauða­færi ríkis­stjórnarinnar til að lækka vaxta­stig

Viðureignin við verðbólguna er nú eitt brýnasta verkefnið á vettvangi ...
7. jún 2023

Höfum við efni á þessu?

Í því efnahagsástandi sem nú ríkir er tímabært að ræða sívaxandi umsvif hins ...
23. jún 2023

Velkomin til framtíðarinnar, árið 2003

Landvernd kynnti tillögur um orkuframleiðslu og -skipti til ársins 2040 án ...
27. jún 2022