Hækkandi fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði

Talsverð umræða hefur farið fram um rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi, sérstaklega útflutningsfyrirtækja í ljósi sterks gengis krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum Íslands. Á sama tíma og krónan hefur styrkst verulega hefur hækkun fasteignaverðs á landinu haft áhrif til hækkunar á fasteignagjöldum á atvinnuhúsnæði. 

Samkvæmt tölum frá Fasteignamati ríkisins hækkaði matsverð atvinnuhúsa og atvinnulóða á höfuðborgarsvæðinu (Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ, Bessastaðahreppi, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ) um nálega fjórðung frá árinu 2002 til ársins 2004 og miðað við ganginn á fasteignamarkaði má búast við að álögur ársins 2005 muni verða til a.m.k. fimmtungs viðbótarhækkunar þegar tilkynnt verður um framreikning á fasteignamati fyrir árið 2005. 

Viðskiptaráð áréttar að engin rök hníga að því að hækkandi fasteignaverð eigi sjálfkrafa að leiða til breikkunar á skattstofnum sveitarfélaga. Hækkandi fasteignaverð er öðrum þáttum fremur afsprengi formbreytingar við fjármögnun fasteigna og slík breyting kallar á endurskoðun kerfis um fasteignagjöld – enda með öllu óeðlilegt að álögur á fyrirtæki vegna fasteignagjalda vaxi um tugi prósenta á örfáum árum. 

Enda þótt fasteignamat á atvinnuhúsnæði fyrirtækja hafi hækkað verulega skilar sú hækkun sér ekki í auknum tekjum til fyrirtækja sem verða hins vegar fyrir umtalsverðum kostnaðarauka vegna hækkandi fasteignamats sem myndar grunn fyrir fasteignagjöld sveitarfélaga. 

Félagsmenn Viðskiptaráðs hafa að undanförnu bent á að ýmis gjöld og álögur hafi farið hækkandi. Viðskiptaráð lýsir áhyggjum yfir vaxandi álögum á fyrirtæki í landinu og hvetur sveitarfélög í landinu eindregið til að grípa þegar í stað í taumana og lækka fasteignaskatta verulega – að minnsta kosti um það hlutfall sem skattstofninn hefur breikkað á síðustu árum vegna hækkandi verðs á atvinnuhúsnæði.

Tengt efni

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic ...
21. ágú 2023

Lífstílsverðbólga stjórnvalda

Lækning lífstílsvanda stjórnvalda er tiltekt og forgangsröðun í útgjöldum ...
23. okt 2023